„Eitt af því sem við erum búin að læra er að vera undirbúin undir það að ef að við förum að fá vísbendingar um það að hér sé að byrja fjórða bylgja að grípa strax til hörðustu aðgerða. Ekki að taka margar vikur í að segja „heyrðu við prófum þetta núna“ svo tökum við eftir tvær vikur ákvörðun um að herða aðgerðir aðeins meira,“ sagði Víðir í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.
Hann segir það hafa sýnt sig að þegar harðar aðgerðir voru settar á hafi það borið bestan árangur.
„Ég held að við eigum ekki að taka það í einhverjum skrefum þegar að vísbendingar eru um næstu bylgju heldur að grípa strax til harðra aðgerða og keyra þetta niður í það að vera viðráðanlegt og geta þá slakað á,“ segir Víðir.
Staðan hér á landi er talin nokkuð góð, fáir greinast smitaðir af veirunni dag hvern, enginn liggur inni á Landspítala vegna veirunnar og bólusetningar eru farnar af stað af mikill alvöru. Greint var frá því í dag að Íslandi berist fleiri bóluefnaskammtar gegn veirunni en gert var ráð fyrir en þegar hefur bóluefni fyrir alla landsmenn verið tryggt.
„Staðan er auðvitað góð, ég held að við hljótum að vera sammála um það að það eru orðnir ansi margir mánuðir, ég held að staðan hafi ekki verið svona góð síðan áður en að önnur bylgjan var að byrja í ágúst á síðasta ári,“ segir Víðir.
„Þetta er gríðarlega verðmæt staða fyrir okkur og við sem samfélag verðum að læra af reynslunni frá því síðasta sumar og síðasta haust, hvernig við ætlum að fara með þetta.“
Hann segir mikilvægt hve almenn þátttaka hafi verið í sóttvarnaaðgerðum. Það sé það sem skipti megin máli og skilji okkur að frá löndunum í kring um okkur, þar sem faraldurinn geisar enn af miklum ofsa.
„Það eru flest lönd að fást við það að vera í vandræðum með að fá alla, eins og þarf, til að vera með í aðgerðum. Til að virða sóttvarnareglurnar, til að skilja aðgerðirnar og taka þátt í þessu eins og mér finnst íslenska samfélagið hafa gert,“ segir Víðir.