Fótbolti

PSG áfram en Börsungar í vandræðum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Messi svekkir sig í kvöld en Börsungar vinna ekki spænska bikarinn í ár.
Messi svekkir sig í kvöld en Börsungar vinna ekki spænska bikarinn í ár. Mateo Villalba/Getty

Það var misjafnt gengi risanna í Frakklandi og á Spáni í bikarkeppnunum þar í landi í kvöld. PSG komst áfram á meðan Barcelona er í vandræðum.

PSG vann 1-0 sigur á Caen. Staðan var markalaus í hálfleik en lánsmaðurinn frá Everton, Moise Kean, skoraði sigurmarkið á fjórðu mínútu síðari hálfleiks.

Þetta voru 64 liða úrslitin í Frakklandi svo PSG er komið áfram í 32 liða úrslitin. Þeir hafa þrettán sinnum unnið frönsku bikarkeppnina, flest allra liða.

Barcelona er hins vegar 2-0 undir eftir tap gegn Sevilla á útivelli. Fyrra markið gerði Jules Kounde á 25. mínútu eftir að hafa farið illa með Samuel Umtiti.

Ivan Rakitic skoraði svo gegn sínum gömlu félögum fimm mínútum fyrir leikslok og lokatölur 2-0.

Sevilla er því í góðri stöðu fyrir síðari leik liðanna sem fer fram á Nou Camp 3. mars.

Fréttin hefur verið uppfærð. Í fyrstu útgáfu var sagt að Barcelona væri úr leik en það er ekki rétt. Leiknir eru tveir leikir í undanúrslitum spænska bikarsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×