Erlent

Bresk stjórn­völd verja tíu ára fangelsis­refsingu fyrir að ljúga um ný­leg ferða­lög

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þeir sem koma frá „rauðum svæðum“ þurfa að dvelja í einangrun á hóteli í tiu daga og greiða fyrir það um 300 þúsund krónur.
Þeir sem koma frá „rauðum svæðum“ þurfa að dvelja í einangrun á hóteli í tiu daga og greiða fyrir það um 300 þúsund krónur. epa/Andy Rain

Bresk stjórnvöld hafa varið þá ákvörðun sína að láta lygar um nýleg ferðalög varða allt að tíu ára fangelsi. Samgönguráðherrann Grant Shapps segir viðurlögin endurspegla alvarleika glæpsins.

Nýjar reglur vegna Covid-19 voru kynntar í gær en frá og með mánudeginum munu þeir sem ferðast til Bretlands frá svæðum á svokölluðum „rauða lista“ þurfa að dvelja í tíu daga einangrun á hóteli.

Þeir sem gera það ekki eiga yfir höfði sér 5.000 til 10.000 punda sekt en þeir sem gefa rangar upplýsingar um nýleg ferðalög við komuna til landsins geta átt von á því að vera dæmdir í allt að tíu ára fangelsi.

Sama refsing og fyrir kynferðisofbeldi

„Tíu ár er hámarksrefsing fyrir líflátshótanir, eitranir sem leiða ekki til dauða og kynferðisofbeldi,“ skrifaði Sumption lávarður, fyrrverandi hæstaréttardómari, í Daily Telegraph. 

Spurði hann að því hvort heilbrigðisráðherrann Matt Hancock teldi virkilega að það að upplýsa ekki um ferð til Portúgal væri alvarlegra en ofbeldisfullir byssuglæpir eða kynferðisbrot gegn börnum.

Dominic Grieve, fyrrverandi ríkissaksóknari fyrir England og Wales, sagði viðurlögin mistök og að þeim yrði aldrei beitt.

Bólusetning núna og aftur í haust

Schapps var spurður út í háar sektir í morgunþættinum BBC Breakfast og sagði að þeir sem yrðu sektaðir um 10.000 pund hefðu „logið og svindlað“ til að verðskulda refsinguna.

Hann sagði að um 1.300 einstaklingar kæmu til Bretlands frá rauðu svæðunum í hverri viku en á listanum eru meðal annars Suður-Afríka og Brasilía, þar sem ný afbirgði kórónaveirunnar hafa komið fram og náð mikilli útbreiðslu.

Shapps hefur hvatt fólk til að vera ekki að áforma ferðalög, hvorki innanlands né út fyrir landsteinana. Þá sagði Boris Johnson forsætisráðherra að fólk ætti að búa sig undir það að láta bólusetja sig núna og aftur í haust vegna nýrra afbrigða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×