Íslenski boltinn

Jana Sól komin í Val

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jana Sól Valdimarsdóttir í Valsbúningnum en hún fer nú úr bláu yfir í rautt.
Jana Sól Valdimarsdóttir í Valsbúningnum en hún fer nú úr bláu yfir í rautt. Instagram/@valurfotbolti

Jana Sól Valdimarsdóttir hefur ákveðið að yfirgefa uppeldisfélag sitt í Garðabænum og er búin að semja við Val.

Valsmenn segja frá þessum liðstyrk á samfélagsmiðlum sínum í dag en Jana verður væntanlega ein af þeim sem eiga í fylla í skarðið sem Hlín Eiríksdóttir skilur eftir sig.

Jana Sól er fædd árið 2003 spilar sem vængmaður og hefur þegar spilað 21 leik og skorað þrjú mörk fyrir Stjörnuna í Pepsi Max deildinni.

Jana gekk frá nýja samningi sínum skömmu fyrir átján ára afmælið sitt sem er í lok vikunnar.

Í fyrrasumar skoraði Jana Sól eitt mark í tólf leikjum með Stjörnunni í Pepsi Max deildinni. Hún var í byrjunarliðinu í átta af fyrstu níu deildarleikjum liðsins en byrjaði ekki inn á eftir 16. ágúst.

Eina markið skoraði hún á móti Þrótti í 5-5 jafntefli en sumarið 2019 þá skoraði hún tvö mörk í deildinni í sjö leikjum. Annað þeirra var sigurmarkið 1-0 sigri á móti HK/Víking.

Jana Sól hefur spilað níu leiki fyrir yngri landslið Íslands og skorað í þeim þrjú mörk en þau komu öll fyrir sextán ára landsliðið.

Jana Sól hefur smá tengsl við Val því móðir hennar, Lovísa Guðmundsdóttir, spilaði körfubolta með Val á árunum 2007 til 2010. Lovísa var landsliðkona í körfubolta og spilaði tuttugu A-landsleiki á sínum ferli.

Faðir Jönu Sólar, Valdimar Kristófersson, skoraði á sínum tíma 28 mörk í 112 leikjum í efstu deild og náði líka að spila tvo A-landsleiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×