Fótbolti

Fékk sig fullsaddan og hætti hjá Marseille

Sindri Sverrisson skrifar
André Villas-Boas tilkynnti á blaðamannafundi að hann væri hættur.
André Villas-Boas tilkynnti á blaðamannafundi að hann væri hættur. Getty/Jonathan Bartolozzi

André Villas-Boas hefur fengið sig fullsaddan af starfsumhverfinu hjá Marseille og tilkynnti á blaðamannafundi í dag að hann væri hættur sem knattspyrnustjóri félagsins.

Villas-Boas, sem áður hefur meðal annars stýrt Chelsea og Tottenham, tók við franska liðinu Marseille árið 2019. Hann tilkynnti síðasta föstudag að hann myndi hætta hjá Marseille í sumar en hefur nú óskað eftir því við forráðamenn félagsins að hann fái að hætta nú þegar, eftir að þeir fengu leikmann til félagsins þvert gegn vilja Villas-Boas. Sú ósk var svo uppfyllt.

„Þetta er ólíðandi. Ég las um það í fjölmiðlum að þessi leikmaður hefði verið keyptur. Þá lagði ég inn skriflega uppsögn,“ sagði Villas-Boas. Marseille hafði fengið til sín Olivier Ntcham að láni frá Celtic í gær.

Villas-Boas sagði ákvörðun sína ekkert hafa að gera með mótmæli stuðningsmanna á laugardag þegar nokkrir þeirra brutu sér leið inn á æfingasvæði Marseille. Þeir vildu lýsa yfir óánægju sinni með forsetann Jacques-Henri Eyraud.

Marseille er í 9. sæti frönsku 1. deildarinnar með 32 stig, sextán stigum á eftir toppliði Lille en með tvo leiki til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×