Um­fjöllun og við­töl: ÍBV - Haukar 27 - 30 | Gestirnir með mikil­­vægan sigur í Eyjum

Einar Kárason skrifar
Sara Odden átti góðan leik í liði Hauka í kvöld.
Sara Odden átti góðan leik í liði Hauka í kvöld. Vísir/Daniel Thor

Sýnd var veiði en ekki gefin þegar sterkt lið ÍBV tók á móti Haukum í Vestmannaeyjum í dag. Eyjastúlkur komu inn í leikinn eftir stórsigur gegn botnliði FH í síðustu umferð á meðan Haukar steinlágu gegn Stjörnunni. Það fór þó svo að Haukar unnu þriggja marka sigur, lokatölur 30-27 gestunum frá Hafnafirði í vil.

Leikurinn fór vel af stað fyrir heimastúlkur og komust þær fljótlega í 5-2 stöðu eftir snarpar og góðar sóknir. Þá tóku gestirnir leikhlé og nýttu það greinilega vel því þær náðu fljótlega að jafna og var leikurinn í járnum megnið af fyrri hálfleik. Eftir um 20 mínútna leik komust Haukar yfir og voru til alls líklegar. Þegar gengið var inn til búningsherbergja í hálfleik leiddu Hafnfirðingar með þremur mörkum, 15-18.

Haukastelpur hófu síðari 30 mínúturnar rétt eins og þær enduðu þær fyrri og héldu ÍBV í hæfilegri fjarlægð þar til um stundarfjórðungur var eftir af leiknum. Heimastúlkur jöfnuðu þá leikinn og komust svo yfir, 23-22. Það entist þó ekki lengi þar sem gestirnir skoruðu næstu tvö mörk leiksins. Svöruðu ÍBV þá með næstu tveimur og allt stefndi í æsispennandi lokamínútur.

Svo reyndist þó ekki vera þar sem Haukar tóku yfir. Góður sóknarleikur í bland við markvörslu varð til þess að Haukar skoruðu fimm mörk gegn tveimur og enduðu því leikar 27-30, rauðklæddum Hafnfirðingum í vil.

Af hverju unnu Haukar?

Gunnar þjálfari talaði um að þær hefðu rætt saman eftir stórt tap gegn Stjörnunni í síðustu umferð. Sú ræða var endurtekin í leikhléi eftir nokkurra mínútna leik og virðist það hafa skilað árangri. Góð sókn, fínn varnarleikur og markvarsla er fínasta hanastél.

Hverjar stóðu upp úr?

Hjá ÍBV dró fyrirliðinn Sunna Jónsdóttir vagninn og skoraði 6 mörk. Henni næst stóðu Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir og Lina Cardell með 4 mörk skoruð. Marta Wawrzynkowska varði 12 skot í markinu.

Hjá Haukum skoraði Rakel Oddný Guðmundsdóttir, fædd 2004, fimm mörk úr sjö skotum. Sara Odden átti góðan leik og skoraði einnig fimm mörk, flest fyrir utan. Annika Fríðheim Petersen átti einnig fínan leik í markinu og tók 13 skot.

Hvað gekk illa?

ÍBV virðist ganga illa að finna formúlu sem gengur. Þrátt fyrir fína kafla hér og þar er liðið að fá á sig of mörg mörk og færanýting mætti vera betri.

Hvað gerist næst?

ÍBV heimsækir Akureyringa næstu helgi á meðan Haukar fá Val í heimsókn á Ásvelli.

Hilmar Ágúst: Eitthvað sem við þjálfararnir verðum að skoða,”

Hilmar Ágúst Björnsson, annars þjálfara ÍBV, stökk ekki bros að leik loknum.

„Við erum komin í fína stöðu þarna 23-22 en við bara hendum þessu frá okkur. Markmaðurinn tekur einhverja sjö, átta bolta þarna í restina og við náum ekki boltanum framhjá henni úr dauðafærum.”

„Þær eru bara að keyra á okkur og við erum ekki nógu þéttar. Við erum að fá á okkur að mig minnir átján mörk. Bara alltof auðvelt. Alltof mikið inn á miðjuna. Það er eitthvað sem við verðum að skoða í framhaldinu.“

Eftir langan og þreyttan eltingaleik komust ÍBV loks yfir um miðjan síðari hálfleik en þá tóku vandræðin við sér að nýju.

„Við erum að spila okkur í ágætis færi, trekk í trekk, og hún er að loka á okkur. Við spilum ágætis vörn og komum okkur inn í leikinn en þær bara galopna okkur í restina og skora einhver sex mörk. Þetta fellur dálítið með markvörslu og slökum varnarleik síðustu fimm, sex mínúturnar.“

„Þetta er bara eitthvað sem við þjálfararnir verðum að skoða,” sagði Hilmar spurður út í óþolinmæði og asa í sóknarleik síns liðs undir lokin.

„Við erum að keyra alltof mikið tempó og erum að tapa of mörgum boltum. Jafnvel þegar við erum skipta línumanninum útaf. Þetta er eitthvað sem við verðum að skoða og varnarleikinn líka,“ sagði Hilmar að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira