Handbolti

Stefán Rafn heim í Hauka

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stefán Rafn Sigurmannsson í Haukatreyjunni.
Stefán Rafn Sigurmannsson í Haukatreyjunni. haukar

Handboltamaðurinn Stefán Rafn Sigurmannsson hefur skrifað undir þriggja ára samning við Hauka.

Stefán Rafn fékk samningi sínum við Pick Szeged í Ungverjalandi rift í ársbyrjun. Hann hefur glímt við erfið meiðsli í il undanfarna mánuði.

Stefán Rafn gekkst undir aðgerð á Íslandi og hefur verið í endurhæfingu að undanförnu. „Ég er búinn að vera glíma við vandamál undir löppinni. Þetta er búið að versna með árunum og núna er kominn sá tímapunktur að ég þarf að vinna í mínum meiðslum og það þarf að ná þessu á rétt ról,“ sagði Stefán við Vísi fyrr í mánuðinum.

Í viðtalinu sagði Stefán Rafn að Haukar væru eina íslenska liðið sem hann myndi ganga til liðs við. Og nú er það orðið að veruleika.

Stefán Rafn, sem er þrítugur, er uppalinn hjá Haukum og lék með liðinu til 2012 þegar hann fór til Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi. Hann vann EHF-bikarinn með þýska liðinu 2013 og varð þýskur meistari með því 2016. Stefán Rafn varð svo danskur meistari með Álaborg 2017.

Hafnfirðingurinn gekk í raðir Pick Szeged 2017, varð ungverskur meistari með liðinu 2018 og bikarmeistari 2019.

Haukar mæta Þór í fyrsta leik sínum í tæpa fjóra mánuði annað kvöld.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×