Alger leynd hefur hvílt yfir raforkuverðssamningum stóriðjunnar á Íslandi við orkufyrirtækin. Iðnaðarráðherra, forstjóri Landsvikjunar og fleiri hafa þrýst á að samningarnir verði opinberaðir. Í dag var fyrsti slíki samningurinn opinberaður þegar Orkuveitan varð við óskum Norðuráls um opinberun samnings fyrirtækjanna.
Bjarni Bjarnason forstjóri Orkuveitunnar segir samninginn óhagstæðan og barn síns tíma. Samningurinn var gerður á árunum 2006 - 2007 og er raforkuverðið tengt heimsmarkaðsverði á áli.

„Þá lá til grundvallar spá fyrir álverð. Sú spá hefur alls ekki gengið eftir. Ef hún hefði gengið eftir værum við í ágætum málum,“ segir Bjarni. Samkvæmt spánni hefði verð á tonni af áli átt að vera 2.800 bandaríkjadalir á þessu ári en verðið er mun lægra eða 2.025 dollarar.
Orkuveitan hefði fengið 35,89 dollara fyrir megavattsstundina samkvæmt spánni en er að fá 25,24 dollara. Þá er flutningur á orkunni til Norðuráls innifalinn í verðinu, þótt búið hafi verið að stofna dreifingarfyrirtækið Landsnet þegar samningurinn var gerður.

„Það þýðir að draga verður flutningskostnaðinn frá tekjum okkar af þessum samningi. Þá fáum við það sem við getum kallað skilaverð til Orkuveitu Reykjavíkur,“ segir forstjórinn.
Í dag er Orkuveitan því að greiða Landsneti 6,35 dollara af hverri megavattsstund. Samningurinn gildir til ársins 2036 og nær til sölu á 47,5 megavöttum, sem er 18 prósent af sölu Orkuveitunnar til Norðuráls og 11 prósent af heildarraforkuvinnslu veitunnar. Hækkun gjaldskrár Landsnets myndi skerða tekjur Orkuveitunnar.
„Við höfum áhyggjur af því, já, að þetta flutningsgjald muni hækka. Hugsanlega verulega miðað við þær áætlanir sem Landsnet hefur um fjárfestingar á næstu árum,“ segir Bjarni Bjarnason.