Conte hefur sætt gagnrýni fyrir aðgerðir stjórnar sinnar í tengslum við heimsfaraldurinn. Alls hafa 85 þúsund manns látist af völdum Covid-19 á Ítalíu frá upphafi faraldursins.
BBC segir möguleika á að Mattarella muni biðja Conte um að mynda nýja stjórn, en stjórnarflokkarnir misstu meirihluta sinn í öldungadeild þingsins í síðustu viku. Einnig er möguleiki á að annar verði beðinn um að mynda nýja stjórn, eða þá að niðurstaðan verði að boðað verði til nýrra kosninga.
Conte, sem starfaði áður sem lagaprófessor, hefur leitt tvær samsteypustjórnir frá árinu 2018. BBC segir Conte nú funda með Elisabetta Casellati, forseta öldungadeildar þingsins, um þá stöðu sem uppi er í ítölskum stjórnmálum.
Conte stóðst í síðustu viku tillögu um vantraust á þinginu. Hún var lögð fram eftir að Matteo Renzi, fyrrverandi forsætisráðherra landsins, dró flokk sinn, Italia Viva, úr samsteypustjórn Contes. Renzi sagði flokkinn einungis ganga aftur til liðs við stjórnina ef Conte myndi ganga að ákveðnum skilyrðum, meðal annars um fjárveitingar úr ríkissjóði. Fulltrúar Fimm stjörnu hreyfingarinnar segja að flokkurinn muni áfram halda tryggð við Conte.
Í fimmtán mánuði leiddi Conte samsteypustjórn Fimm stjörnu hreyfingarinnar og hægriöfgaflokksins Bandalagsins. Sú stjórn sprakk þegar Matteo Salvini, leiðtogi Bandalagsins, dró flokkinn út úr stjórninni í tilraun til að tryggja nýjar kosningar. Það tókst hins vegar ekki eftir að Fimm stjörnu hreyfingin, Lýðræðisflokkurinn og fleiri flokkar ákváðu að snúa bökum saman og mynda nýja stjórn – aftur undir stjórn Contes.