Marcelo, líkt og hann er jafnan kallaður í Portúgal, er 72 ára íhaldsmaður og virðist hafa fengið um 62 prósent atkvæða, nú þegar búið er að telja nær öll atkvæði.
Fyrir kosningar þótti líklegast að Marcelo myndi bera sigur úr býtum, en kosningaþátttaka var mikill óvissuþáttur vegna heimsfaraldursins. Kosningaþátttakan virðist líka hafa verið mjög lítil, eða um 35 prósent.
Ana Gomes, frambjóðandi Sósíalista, fékk næstflest atkvæði, eða rúmlega tólf prósent. Þá fékk frambjóðandi hægriöfgamanna, Andre Ventura, tæplega tólf prósent atkvæða.
Í Portúgal er forsetaþingræði og eru völd forseta því nokkuð meiri en víða annars staðar í álfunni þar sem oft er um valdalítil embætti að ræða.