Keflavík vann erkifjendur og nágranna sína í Njarðvík er liðin mættust í Ljónagryfjunni í kvöld. Lokatölur 90-77 sem þýðir að Keflavík er komið á topp Dominos-deildar karla.
Keflavík byrjaði þennan lokaleik 4. umferðar mun betur en þeir skoruðu fyrstu 7 stig leiksins með Dominykas Milka í fararbroddi, fimm stig og þrjú fráköst. Gestirnir voru í raun alltaf í bílstjórasætinu en munurinn á liðunum var mest 11 stig í fyrsta leikhluta, í stöðunni 13-24. Þá hrökkva Njarðvíkingar í gang og skoruðu þeir síðustu 5 stig fyrsta leikhlutans sem lýkur 18-24.
Njarðvík hélt áfram áfram að minnka muninn í upphafi annars leikhluta, Antonio Hester sem fékk 3 villur í fyrsta leikhluta komst þá aðeins í gang og skoraði 7 fyrstu stig sín í kvöld á 4. mínútna kafla í öðrum leikhluta og minnkar muninn í tvö stig í stöðunni 31-33.
Nær komust Njarðvíkingar ekki því Keflavík setti aftur í fluggír og staðan var 41-53 þegar liðin gengu til búningsherbergja. Dominykas Milka var frábær í fyrri hálfleiknum og skoraði hann alls 21 stig ásamt því að taka sjö fráköst og gefa tvær stoðsendingar í fyrri hálfleik.
Njarðvíkingar koma af miklum krafti inn í seinni hálfleik og gáfu Keflvíkingum ekkert eftir. Liðin skiptust nokkurn veginn á að skora í þriðja leikhluta en Njarðvíkingar settu niður síðustu 10 stig þriðja leikhlutans en það voru Rodney Glasgow og Antonio Hester sem skiptu þessum 10 stigum sín á milli. Njarðvík vann þriðja leikhluta 21-16 en því miður fyrir þá grænklæddu þá var þetta eini leikhlutinn sem heimamenn unnu.
Fjórði og síðasti leikhlutinn var frekar jafn en heimamenn náðu að minnka muninn niður í þrjú stig í stöðunni 71-74 en nær komust þeir ekki. Anotnio Hester og Ólafur Helgi fengu báðir sína fimmtu villu í síðasta leikhlutanum og Keflvíkingar gengu á lagið og skoruðu 16 stig gegn sex eftir að munurinn fór niður í 3 stig og unnu leikinn að lokum 77-90.
Af hverju vann Keflavík?
Keflvíkingar eru með gríðarlega sterkt lið. Fyrstu fimm í liðinu voru það öflugir í kvöld að gestirnir þurftu ekki einu sinni stig af bekknum til að vinna Njarðvíkinga en varamenn Keflavíkur voru með núll stig í kvöld.
Hvað gekk illa?
Njarðvíkingar voru í villuvandræðum í kvöld. Þeir misstu Hester út af í fjórða leikhluta þegar leikurinn var alveg að verða spennandi aftur. Logi Gunnarson náði sér heldur ekki á strik í kvöld, einungis 8 dögum eftir að hafa skorað 30 stig á þessum velli gegn Haukum var Logi aðeins með 3 stig úr 7 tilraunum í kvöld. Logi endaði leikinn með -4 framlagspunkta.
Hverjir stóðu upp úr?
Dominykas Milka var enn og aftur gjörsamlega frábær í liði Keflavíkur. Milka setti niður 32 stig, var með 100% nýtingu úr þremur þriggja stiga tilraunum og var ógnvænlegur undir körfunni þar sem hann ryksugaði til sín heil 19 fráköst. 46 framlagspunktar frá þessum litháíska Bandaríkjamanni.
Hvað gerist næst?
Eins og áður er stutt á milli leika í Dominos deildinni. Njarðvíkingar spila strax aftur á sunnudaginn á Hlíðarenda á móti Val á meðan að Keflvíkingar fá auka dag í hvíld, áður en þeir taka þátt í öðrum suðurnesja slag, þegar Grindavík kemur í heimsókn í uppgjöri efstu liða deildarinnar á mánudaginn.
Logi Gunnars: Þeir pössuðu vel að ég fengi ekki mörg skot í dag
Logi Gunnarsson var eðlilega mjög svekktur með tapið gegn erkifjendunum í Keflavík á heimavelli.
„Það er svekkjandi að tapa með 13 stigum þegar við vorum búnir að minnka þetta niður í þrjú stig þegar fjórar mínútur voru eftir. Þetta var fljótt að gossa aftur upp í þennan mun og í raun algjör óþarfi. Þetta byrjar kannski samt allt í fyrri hálfleik hjá okkur. Við lendum of mikið undir í fyrri hálfleik og vorum svolítið að grafa okkar eigin gröf og erum lengi að koma okkur aftur inn í leikinn. Við náum samt að komast aftur inn í leikinn en svekkjandi að tapa með þessum 13 stigum,” sagði Logi í viðtali strax eftir leik.
Njarðvíkingar náðu að komast til baka eftir að hafa byrjað leikinn frekar illa og minnkuðu muninn niður í þessi þrjú stig en misstu leikinn síðan aftur frá sér.
„Það kemur óðagot í sókninni, við tókum rangar ákvarðanir fannst mér í nokkrum sóknum og Valur setur þarna þriggja stiga skot beint á móti körfunni og kemur þeim aftur upp og það slær svolítið á okkar áhlaup. Það er bara svoleiðis. Þeir eru með góða leikmenn í öllum stöðum og þeir refsa ef við sofnum á verðinum og þeir gerðu akkúrat það í nokkur skipti og það var nóg til að taka aftur fram úr okkur,” svaraði Logi aðspurður af því hvers vegna Njarðvík missti leikinn aftur frá sér.
Logi endaði leikinn í kvöld með aðeins 3 stig -4 framlagspunkta en síðast þegar hann spilaði í Ljónagryfjunni fyrir rúmri viku átti hann stórleik og setti niður 30 stig.
„Það er upp og niður í þessu. Í dag var ég að dekka kanann þeirra allan tíman, það er góður leikmaður. Kannski hefur það tekið eitthvað smá úr mér. Stundum fær maður opin skot og stundum ekki en þeir pössuðu vel að ég fengi ekki mörg skot í dag og þá verður maður bara að reyna að hjálpa liðinu á annan hátt. Þetta snýst ekki allt um að skora,” var það sem Logi hafði að segja um frammistöðu sína í kvöld.
Næsti leikur Njarðvíkur er strax á sunnudaginn gegn Val á Hlíðarenda. Loga langar að nota þann leik til að bæta upp fyrir tapið í kvöld.
„Það er bara einn dagur á milli. Það verður gaman að fá að hreinsa þetta tap aðeins í burtu og fá að spila annan leik strax. Valsarar eru með hörkulið en við förum þangað til þess að vinna. Við munum reyna að byggja á einhverjum góðum hlutum sem gerðust hérna í kvöld, sérstaklega á kaflanum sem við vorum að komast til baka,” sagði Logi Gunnarsson fyrirliði Njarðvíkur að lokum.
Hörður Axel: Það skiptir öllu máli í Reykjanesbæ að vinna þessa leiki.
Hörður Axel Vilhjálmsson, fyrirliði Keflavíkur átti fínan leik í baráttunni um Reykjanesbæ. Hörður setti niður 10 stig, tók 3 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Sigurinn í kvöld var Herði gífurlega mikilvægur.
„Þetta skiptir fólkið hérna máli, ekki bara leikmennina. Þetta skiptir báðum bæjarfélögum máli og hefur gert það síðan ég man eftir mér. Margir sem ég hitti í vikunni voru að tala um að við höfðum verið að standa okkur mjög vel hingað til en það allt myndi ekki skipta neinu máli ef við myndum tapa hérna í dag. Það skiptir öllu máli í Reykjanesbæ að vinna þessa leiki,” sagði Hörður í viðtali strax eftir leik.
Keflavík var með forskot í leiknum frá fyrstu mínútu en Njarðvíkingar náðu nokkru sinnum að komast aftur inn í leikinn og gera hann spennandi. Hörður var ánægður með sigurinn í þessum óvenjulegu aðstæðum.
„Ég er sáttur við sigurinn. Það er mjög skrítið að spila Keflavík-Njarðvík og enginn í húsinu. Maður er vanur því að fá extra fiðring fyrir þessum leik þar sem að allur bærinn er á staðnum. Umfram allt er ég mjög sáttur að vinna leikinn. Ég er sáttur að við náðum að halda sjó þegar þeir koma með þetta áhlaup sitt sem við gerðum á sama tíma illa að hleypa þeim inn í leikinn,” sagði Hörður áður en hann bætti við,
„Við vorum skynsamir, mjög skynsamir til að byrja með. Við bjuggum til gott forskot og komum þeim í villuvandræði, sem ég persónulega var að leitast eftir. Því þá eru þeir í eltingarleik út frá því og þurfa að skipta inn á mun minni leikmönnum inn í teig, miðað við þá sem byrjuðu inn á. Við vorum líka skynsamir að róa leikinn niður þegar að þeir komu með áhlaupið sitt. Við fundum réttu opnanir og Valur kemur svo með tvo stóra þrista sem slekkur svolítið í þessu hjá þeim.”
Það er spilað mjög þétt í Dominos deildunum, bæði karla og kvenna, um þessar mundir. Ásamt því að vera leikmaður karlaliðs Keflavíkur er Hörður Axel líka aðstoðarþjálfari kvennaliðsins. Næsti leikur karlaliðs Keflavíkur er toppslagur gegn Grindavík á mánudaginn næstkomandi en það eru einu tvö liðin í deildinni sem hafa 100% árangur eftir fjórar umferðir. Hörður er þó langt frá því að vera kominn með hugann að þessum toppslag, þó það sé ekki nema þrír dagar í hann.
„Ég var að einbeita mér af þessum leik í dag, svo á ég leik á morgun með kvennaliðinu gegn Val. Ég fæ ekki að komast lengra en einn dag í einu í þessari geðveiki sem þetta er akkúrat núna, 4-5 leikir í viku. Ég ætla byrja á því að klára Val á morgunn í kvenna og svo hugsa ég um Grindavík,” sagði Hörður Axel Vilhjálmsson að lokum með stórt bros á vör.