Innlent

Kaflaskil þegar fyrstu Íslendingarnir fá seinni sprautuna í vikunni

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að það taki um viku eftir seinni sprautuna til að öðlast endanlega vörn gegn sjúkdómnum.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að það taki um viku eftir seinni sprautuna til að öðlast endanlega vörn gegn sjúkdómnum. Vísir/Egill

Það var þann 29. desember sem fyrstu Íslendingarnir fengu fyrri sprautuna fyrir Covid-19. Síðan eru liðnar þrjár vikur og á fimmtudag verður hafist handa við að gefa tæplega fimm þúsund manns seinni sprautuna.

En líkt og fram hefur komið þarf tvær bóluefnasprautur Pfizer við COVID-19 til að öðlast fulla vörn gegn veirunni.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar greinir frá skipulagi bólusetningar á höfuðborgarsvæðinu þessa vikuna.

„Við erum að fara að bólusetja á morgun og þá erum við að fá skammt númer tvö frá Pfizer fyrir eldri borgara og við munum fara á allar dagdvalir, í dagþjálfun, heimahjúkrun og ýmsa staði sem við finnum eldra fólk. Við náum til þeirra og bólusetjum það heima.“

Það verður síðan á fimmtudag sem ákveðin kaflaskil verða í bólusetningu fyrir COVID-19 þegar  eldri borgarar fá seinni sprautuna og verða þá vonandi komnir með endanlega vörn gegn veirunni litlu seinna.

„Þannig að þá eru öll hjúkrunarheimilin að fá sinn skammt númer tvö og þá ættu þau að vera orðnir fullbólusett í næstu viku og komin með góða vörn í næstu viku. Talað er um að þú eigir að vera komin með fulla vörn viku eftir seinni sprautuna,“ sagði Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar.


Tengdar fréttir

Þrjú þúsund úr elsta aldurshópnum bólusett í vikunni

Bólusetningar á landinu halda áfram í vikunni þegar tæplega fimm þúsund manns á hjúkrunarheimilum og framlínustarfsmenn fá sína seinni bóluefnasprautu við Covid-19. Þá kom skammtur með bóluefni fyrir þrjú þúsund manns til landsins í morgun að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×