Í einu tilfelli sé hins vegar ekki hægt að útiloka tengsl með vissu þótt líklegra sé að undirliggjandi sjúkdómur hafi átt þátt í andlátinu.
Um var að ræða fjögur andlát og svo alvarleg veikindi í einu tilfelli sem leiddu til andláts. Umræddar tilkynningar bárust á tímabilinu frá því bólusetningar hófust í lok desember til 5. janúar.
Þetta kom fram í máli Ölmu Möller, landlæknis, á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag.
Rannsóknin var þríþætt og fólst í fyrrnefndri rannsókn sérfræðinga hjá landlækni. Þeir fóru ítarlega yfir sjúkraskrárgögn viðkomandi einstaklinga og rýndu grunnheilsufar til að leggja mat á hvort um hugsanleg orsakatengsl væri að ræða.
Þá var tölfræði dauðsfalla einnig könnuð og athugað hvort andlát væru fleiri en í venjulegu árferði. Í ljós kom að ekki væri um aukningu að ræða en Alma sagði að áfram yrði sérstaklega fylgst með þessari tölfræði.
Auk þessa sendu Lyfjastofnun og sóttvarnalæknir fyrirspurn til Norðurlandanna og víðar til að kanna hvort sambærilegar tilkynningar hefðu borist þar. Einstaka dauðsfall hafði verið tilkynnt en almennt eru andlátin talin tengjast undirliggjandi sjúkdómum.