„Það gæti aukist. Við fylgjumst með í dag, við höfum ekki séð neinar breytingar á neinu. Við erum á vaktinni og fylgjumst með og tökum stöðuna jafnóðum,“ segir Sveinn Brynjólfsson hjá ofanflóðavakt Veðurstofunnar í samtali við Vísi.
Hann segist ekki búast við því að rýmingu verði aflétt strax en sérfræðingar meti næstu skref.
„Við erum bara að funda um stöðuna og horfa á þessi mæltitæki sem við höfum, úrkomumælana og tala við heimamenn hvort þeir sjái einhverjar hreyfingar,“ segir Sveinn. „Það er allt með kyrrum kjörum eins og er.“
Rýmingin var lögð til í varúðarskyni þar sem óvissa er um stöðugleika hlíðanna í Botnabrún eftir skriðuföllin í desember síðastliðnum. Samkvæmt tilkynningu frá Almannavörnum er reiknað með því að rýming vegna skriðuhættu á Seyðisfirði verði á næstu vikum lögð til í ákveðnum skrefum eftir því sem meiri reynsla fæst á stöðugleika hlíðarinnar.
„Þessi reynsla fæst með því að fylgjast með því hvernig jarðlög bregðast við úrkomu í kjölfar nýafstaðinnar skriðuhrinu og því er lögð til rýming við minni úrkomu til að byrja með en vænta má að síðar verði,“ segir tilkynningunni.