Erlent

Tvær milljónir manna hafa látist af völdum veirunnar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Meira en tvær milljónir manna hafa látist af völdum kórónuveirunnar.
Meira en tvær milljónir manna hafa látist af völdum kórónuveirunnar. Getty/Diego Ibarra Sanchez

Meira en tvær milljónir manna hafa látist af völdum kórónuveirunnar. 93,4 milljónir hafa greinst smitaðir af veirunni á heimsvísu og flestir í Bandaríkjunum, þar sem tæpar 24 milljónir hafa greinst og 405 þúsund látist af völdum veirunnar.

Rétt rúmt ár er liðið frá því að fyrsta kórónuveirutilfellið greindist í kínversku borginni Wuhan og tæpir ellefu mánuðir frá því að fyrsta tilfellið greindist hér á landi.

Víða hafa bólusetningar gegn veirunni hafist, þar á meðal í Bandaríkjunum, Bretlandi, Ísrael, Kanada, Íslandi og fleiri Evrópuríkjum. Þau ríki eiga það samt flest sameiginlegt að vera meðal ríkustu ríkja heims en í þeim fátækari spá sérfræðingar öðru hörmungarári.

Til að mynda hefur Mexíkó aðeins fengið afhenta fimmhundruð þúsund skammta af bóluefni gegn veirunni en þar í landi búa rúmlega 130 milljón manns.

Af þeim 50 ríkjum sem þegar hafa hafið bólusetningar eru 41 hátekjuríki, átta teljast til miðjunnar og eitt til lágtekjuríkja.

Þegar þetta er skrifað hafa 35 milljón skammtar, af hinum ýmsu covid-19 bóluefnum, verið gefnir almenningi. Flestir eiga eftir að fá annan skammt af bóluefninu en þau þarf flest að gefa í tveimur skömmtum.

Dr. Soumya Swaminathan, aðalvísindamaður Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO), segir ólíklegt að heimurinn nái hjarðónæmi gegn Covid-19 á þessu ári. Eins og reynslan hafi sýnt dugi það ekki til að ná tökum á veirunni á nokkrum stöðum til þess að það beri árangur fyrir heiminn allan.


Tengdar fréttir

Bólusetningarvottorð tekin gild á landamærum

Heilbrigðisráðherra hefur samþykkt tillögu vinnuhóps um vottorð, þess efnis að bólusetningarvottorð sem uppfylla leiðbeiningar sóttvarnalæknis og gefin eru út í EES/EFTA-ríki, verði tekin gild á landamærum Íslands. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×