Umfjöllun og viðtöl: Þór Ak. - Stjarnan 83-86 | Stjörnumenn heppnir

Karl Jónsson skrifar
Valur - Stjarnan Domino´s deild karla vetur 2020 - 2021 körfubolti KKÍ
Valur - Stjarnan Domino´s deild karla vetur 2020 - 2021 körfubolti KKÍ Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Það áttu ekki margir von á því að úr yrði alvöru leikur í kvöld þegar Þórsarar á Akureyri tóku á móti Stjörnumönnum í Dominos deildinni. Sérstaklega ekki í hálfleik þar sem gestirnir leiddu 28-50. En Þórsarar sýndu bestu hliðar þessarar íþróttar þegar þeir tóku sig saman eftir að hafa misst leikstjórnanda sinn í bað í þriðja leikhluta og bjuggu til alvöru leik. Það var hins vegar á herðum Hlyns Bæringssonar að sigla skútunni í höfn fyrir Stjörnumenn sem unnu 83-86 eftir ótrúlegan seinni hálfleik.

Alexander Lindqvist var ekki með Stjörnumönnum í kvöld en hann er meiddur á hné. Hjá Þór vantaði Júlíus Orra Ágústsson sem er ristarbrotinn.

Hlynur setti 16 stig í kvöld þar af 12 úr vítaskotum. Gunnar Ólafsson og Mirza Sarajlija skoruðu einnig 16 stig og Arnþór Freyr Guðmundsson 13. Hjá Þór var Srdan Stojanovic me 26 stig, Andrius Globys með 23 og Ivan Alconada 17.

Þórsarar naga sig heldur betur í handabökin eftir leikinn því þeir klikkuðu á 12 vítaskotum og voru með afleita nýtingu. Það er sannarlega hægt að horfa á slíka tölfræði í þriggja stiga tapi.

Það var greinilegt í upphafi hvert uppleggið var hjá gestunum, það var að halda Dedrick Basile leikstjórnanda Þórsara eins mikið frá boltanum og hægt var. Þórsarar lentu í talsverðum vandræðum með að koma boltanum upp völlinn og eyddu þar með dýrmætum sekúndum í hvert sinn. Helsta sóknarvopn Þórsara í kvöld, Spánverjinn Ivan Alcolado, fékk talsvert af sendingum undir körfuna en líkamsburðir hans máttu sín oft lítils gegn Hlyn Bæringssyni sem gerði honum erfitt fyrir. Á hinum endanum voru sóknir Stjörnumanna mjög markvissar og beindust gegn veikleikum í varnarleik Þórsara. Ekki það, Þórsarar hefðu með meiri ákefð getað gert gestunum erfiðara fyrir því inn á milli fengu þeir körfur á sig þar sem menn voru hreinlega ekki með á nótunum eins og Iðnaðarbankinn var í gamla daga.

Þórsarar skoruðu fyrstu körfu annars leikhluta þegar hann var hálfnaður og voru komnir í talsverð vandræði. Arnþór Freyr var funheitur fyrir utan línuna og hélt áfram því verki sem Mirza félagi hans sá um í fyrsta leikhluta. En oft komu þessi skot eftir aðeins eina hindrun og hafa Þórsarar örugglega ekki verið ánægðir með framkvæmd varnarleiksins.

En í hálfleik var komin þægileg staða fyrir Stjörnumenn, eða 28-50 og fátt sem benti til þess að þeir væru að fara að lenda í erfiðum leik í seinni hálfleik.

Hvað gerðist inni í hálfleik er erfitt að segja en Þórsarar sendu allt annað lið á parketið en hafði spilað fram að því. Sjálfstraustið og viljinn var nú í algjörum botni og allt annað að sjá til liðsins. En útlitið varð þó heldur betur svart fyrir heimamenn þegar Dedrick Basile leikstjórnandi þeirra fékk sína aðra óíþróttamannslegu villu sem þýðir brottrekstur í körfuboltareglunum. Fyrri villan átti fullan rétt á sér en menn voru ekki á eitt sáttir með þá seinni. En þetta var staðan og flestir héldu að þarna myndu Þórsarar kasta hvíta handklæðinu inn, sérstaklega þar sem hinn leikstjórnandi þeirra Júlíus Orri var meiddur.. En það var nú öðru nær. Þeir stoppuðu Stjörnumenn í hverri sókn þeirra á fætur annarri og geisluðu af sjálfstrausti. Smári Jónsson kom inn í stað Dedricks og átti frábæra innkomu og einhvern veginn kom meiri ró yfir sóknarleik heimamanna eftir þetta atvik. Þórsarar unnu leikhlutann 30-12 og áttu hann gjörsamlega.

Eftir að Þórsarar höfðu minnkað muninn í tvö stig 63-65 kom áhlaup frá gestunum og þeir juku muninn upp í 10 stig þegar mest var 77-67. En heimamenn gerðu eina atlögu til en tókst ekki að brúa bilið eftir að munurinn var kominn í tveggja sókna mun þegar 10 sekúndur voru eftir. Lokatölur 83-86 í leik sem var eins og svart og hvítt.

Af hverju vann Stjarnan leikinn?

Stjörnumenn komu gríðarlega vel undirbúnir til leiks, voru með varnarhlutverk sín á hreinu og spiluðu agaðan sóknarleik. Undir lokin þegar mest lá við leituðu þeir til Hlyns Bæringssonar sem skoraði mikilvægar körfur og nýtti víti sín ágætlega.

Hverjir stóðu upp úr?

Hlynur Bæringsson var sá sem stóð upp úr þegar mest á reyndi og leiddi hann sína menn til sigurs á lokamínútunum. Hann spilaði aukin heldur frábæra vörn á Ivan Alconada í fyrri hálfleik sem mátti sín lítils gegn hinum sterka Hlyn. Þá má minnast á Ægi Þór, Gunnar Ólafs og Arnþór sem áttu skínandi leik.

Hjá Þórsurum átti Srdan Stojanovic prýðisleik og Ivan Alconada var sterkur í seinni hálfeik. Andrius Globys kom einnig til skjalanna í seinni hálfleik og þurfti m.a. axla ábyrgð dripplara löngum stundum. Þá vakti frammistaða ungs leikmanns Smára Jónssonar athygli en þar er á ferðinni efnilegur piltur.

Hvað gekk illa?

Þórsurum gekk illa að ráða við sterka pressuvörn Stjörnumanna í upphafi og virkuðu hræddir á köflum og lagði það grunninn að góðu forskoti gestanna í hálfleik. Stjörnumönnum vantaði hins vegar aga og ákveðni í síðari hálfleik þegar Þórsarar hjuggu forskotið niður.

Hvað gerist næst?

Það er spilað þétt í mótinu núna og næsta fimmtudag halda Þórsarar suður yfir heiðar, alla leið í Breiðholtið þar sem þeir heimsækja Borche Ilievski og hans menn í Hertz-hellinum. Stjarnan tekur hins vegar á móti Þór Þorlákshöfn á föstudaginn í Mathús Garðarbæjarhöllinni og ljúka þar með Þórsviku sinni að þessu sinni.

Bjarki Ármann Oddsson þjálfari Þórsara sagði sína menn hafa hreinlega skammast sín fyrir frammistöðuna í fyrri hálfleik. „Við vorum ekki að gera það sem við lögðum upp með gegn pressunni þrátt fyrir að hafa undirbúið okkur vel undir það. Það var slæmt að missa Dedrick út af en þá komu bara leikmenn inn sem voru fullir sjálfstrausts eins og Smári, Kolbeinn, Ragnar og Hlynur,“ sagði Bjarki. Bjarki sagðist vona að hann gæti tekið það út úr þessum leik að ungu strákarnir færu að stíga betur upp í annars þunnum hópi og því væri gríðarlega dýrmætt fyrir þá að fá mínútur í upphafi mótsins.

Arnar Guðjónsson þjálfari Stjörnumanna vildi byrja á því að votta fjölskyldu Ágústs Guðmundssonar samúðarkveðjur sínar og sagði skrýtið að koma á leik og hafa hann ekki á leiknum. „Við byrjuðum leikinn mjög vel en eigum svo mjög vondar mínútur í þriðja leikhluta, þjálfarateymið og allir og hleypum þeim inn í leikinn. Við gerðum ágætlega að taka Dedrick út úr leiknum, en ætluðum nú ekki að senda hann alla leið í sturtu, en Þórsarar urðu betri við það að hann fór út af og við gáfum þeim líflínu. Fyrstu 3-4 mínúturnar í seinni hálfeik skipta miklu máli þegar þú ert með góða forystu í hálfleik og við vorum í raun bara heppnir að ná að vinna hér í kvöld,“ sagði Arnar að lokum.

Kolbeinn Fannar Gíslason „hinn ungi“ fyrirliði Þórsara sagði sína menn hafa náð að róa sig meira hálfleiknum og náð betri tökum á sjálfum sér. „Við vorum ekki að frákasta vel í fyrri hálfleik og vorum með allt of marga tapaða bolta í fyrri hálfleik en fráköstin hjálpuðu okkur hins vegar mikið í þeim síðari,“ sagði Kolbeinn. Hann sagði erfitt að missa Dedrick út úr leiknum þegar hann væri eini leikstjórnandinn. „Það voru ýmsir leikmenn að taka upp boltann sem eru ekki vanir því, Smári kom mjög sterkur inn og við náðum að svara þessu mótlæti í stað þess að fara inn í einhverja litla kúlu,“ sagði Kolbeinn þokkalega sáttur með frammistöðu sinna manna.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira