Málið snýst um 'Ndrangheta-mafíuna, þá valdamestu á Ítalíu, sem á höfuðstöðvar í Calabria-héraði og er talin ráðandi í kókaínverslun á meginlandinu. Hin ákærðu eru sökuð um meðal annars fjárkúgun, eiturlyfjasmygl, morð og stórfelldan þjófnað.
Vegna umfangs réttarhaldanna fara þau ekki fram í hefðbundnum réttarsal heldur í breyttu úthringiveri í bænum Lamezia Terme. Samkvæmt CNN eru sakborningar settir í málmbúr og hundruðum skrifborða hefur verið komið upp fyrir álíka marga lögfræðinga og blaðamenn.
Þetta eru stærstu mafíuréttarhöldin á Ítalíu frá því á níunda áratugnum og beindust þau gegn allnokkrum hópum á Sikiley. Réttarhöldin nú snúast einungis um Mancuso-fjölskylduna, eina þá valdamestu innan 'Ndrangheta-mafíunnar.
Til marks um það hversu stór réttarhöldin nú eru tók það þrjár klukkustundir að lesa upp nöfn allra verjenda. Í hópnum eru stjórnmálamenn, lögreglumenn, embættismenn og meintir meðlimir og samverkamenn mafíunnar.
Þekktustu sakborningarnir eru sagðir Luigi Mancuso, höfuðpaur fjölskyldunnar, og Giancarlo Pittelli, fyrrverandi öldungadeildarþingmaður Forza Italia.