Sport

Bíða spenntir eftir því að Sara opinberi nýja þjálfara sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Sigmundsdóttir hefur þjálfað sig sjálfa í nokkurn tíma en nú búast CrossFit sérfræðingar við að hún geri breytingu á því.
Sara Sigmundsdóttir hefur þjálfað sig sjálfa í nokkurn tíma en nú búast CrossFit sérfræðingar við að hún geri breytingu á því. Instagram/@sarasigmunds

Eftir vandræðin á heimsleikunum í haust þá virðist íslenska CrossFit drottningin Sara Sigmundsdóttir ætla að gera stórar breytingar hjá sér.

Það lítur núna út fyrir að Sara Sigmundsdóttir ætli ekki lengur að vera sinn eigin þjálfari.

Sara byrjaði síðasta CrossFit tímabil frábærlega og virtist ætla að berjast við Tiu-Clair Toomey um heimsmeistaratitilinn. Þegar kom loksins að heimsleikunum þá var okkar kona ekki lík sjálfri sér og var á endanum langt frá því að komast í ofurúrslitin.

Sara sagði seinna frá því að meiðsli snemma sumars höfðu mikil áhrif á hana og hún rakti þannig kraftleysi á úrslitastundu tímabilsins til hormónaskorts hjá sér sem var afleiðing af því að hafa byrjað of snemma.

Það þarf því kannski ekki að koma mikið á óvart að Sara ætli að hrista aðeins upp í hlutunum á nýju ári. Hún hefur líka verið dugleg að prófa nýja hluti og breyta til á ferli sínum í CrossFit íþróttinni.

CrossFit miðillinn Morning Chalk Up er þannig með Söru Sigmundsdóttur í upptalningu sinni á stórum breytingum hjá besta CrossFit fólkinu.

Meðal þeirra er ákvörðun Brooke Wells að hætta hjá Ben Bergeron, þjálfara Katrínar Tönju Davíðsdóttur, og ráða frekar Shane Orr, eiginmann Tiu-Clair Toomey, sem sinn nýja þjálfara.

Shane Orr hefur gert góða hluti með eiginkonu sína sem hefur verið ósigrandi í fjögur ár í röð. Hann er greinilega að færa út kvíarnar því bæði Alec Smith og Will Moorad eru komnir til hans líka.

Fjórða stóra breytingin á þjálfurunum sem er nefnd til sögunnar er síðan spurningin um næsta þjálfara Söru Sigmundsdóttir. Fólkið á Morning Chalk Up bíður spennt eftir því að Sara opinberi nýja þjálfara sinn.

„Þó að það hafi ekki verið formleg staðfesting frá búðum Sigmundsdóttur þá hefur hefur hún sagt frá því að hún sé að leita að nýjum þjálfara og nýju prógrammi fyrir 2021 tímabilið. Við munum láta vita af því um leið og Sara og hennar teymi staðfesta breytingarnar,“ segir í frétt Morning Chalk Up um framtíðarþjálfara Söru.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×