Live Perform Compete greindi frá því að vinsælustu þættir ársins hjá hlaðvarpinu voru þættirnir tveir þar sem farið var yfir söfu Söru Sigmundsdóttur. Þetta voru þættir 23 og 24 hjá Live Perform Compete árinu 2020.
Live Perform Compete er reglulega með viðtal við áberandi fólk í CrossFit heiminum og því var nóg af flottum viðmælendum á árinu. Enginn þeirra átti þó roð í vinsældir Suðurnesjakonunnar.
Ed Haynes settist niður með Söru og fór yfir viðburðaríka ævi hennar og leið hennar inn í CrossFit íþróttina. Þeir sem þekkja Söru og hafa hlustað á viðtölin við hana í gegnum tíðina vita vel að hún er óhrædd við að gefa af sér á slíkum stundum. Sara er opin og hreinskilin og heillar flesta með jákvæðni sinni og metnaði.
Í fyrri þættinum þá fékk Ed Söru til að segja frá æsku sinni en þar kom meðal annars fram að á sínum tíma hafi Sara notað allar mögulegar afsakanir til að sleppa við leikfimi. Sara sagði einnig þar frá fyrsta þjálfaranum sínum í Bootcamp og að hún hafi líka reynt fyrir sér í vaxtarrækt. Sara sagði líka frá erfiðri og krefjandi byrjun sinni í CrossFit íþróttinni.
Í seinni þættinum ræðir Sara árið 2016 þegar hún var nálægt því að hætta i CrossFit. Hún fer þar einnig yfir alla þjálfarana sem hún hefur haft í gegnum tíðina sen og upplifun sína að æfa með Rich Froning og Mayhem liðinu. Sara sagði líka sögur frá keppni sinni á heimsleikunum.
Sara ræðir einnig framtíðarsýn sína, bæði hvað varða hana sjálfa en einnig hvernig hún sér CrossFit íþróttina þróast. Sara ræddi líka lokamarkmið sitt sem íþróttakonu.
Hér má hlusta á þátt númer eitt.
Hér má hlusta á þátt númer tvö.
Hér fyrir neðan má sjá Live Perform Compete hlaðvarpið vekja athygli á vinsældum viðtalsþátta sinna við Söru Sigmundsdóttur.