Bíó og sjónvarp

Stað­festa að Sex and the City snúi aftur

Atli Ísleifsson skrifar
Sarah Jessica Parker, Cynthia Nixon og Kristin Davis snúa allar aftur.
Sarah Jessica Parker, Cynthia Nixon og Kristin Davis snúa allar aftur. Getty

Til stendur að framleiða nýja þáttaröð af Sex and the City. Í nýju þáttaröðinni verða tíu hálftíma langir þættir sem framleiddir eru fyrir streymisveituna HBO Max.

Variety greinir frá því að leikkonurnar Sarah Jessica Parker, Cynthia Nixon og Kristin Davis muni allar snúa aftur sem Carrie, Miranda og Charlotte, en Kim Cattrall verður þó fjarri góðu gamni.

Mikið hefur verið fjallað um ósætti Cattrall og Parker eftir að framleiðslu Sex and the City kvikmyndanna lauk og hefur Cattrall ítrekað hafnað boðum um að taka að sér hlutverki Samönthu á ný.

Nýju þættirnir eru titlaðir „And Just Like That…“ og mun segja frá ástarlífi, vinskap og lífi þeirra Carrie, Miröndu og Charlotte, sem eru nú á sextugsaldri og búa enn í stórborginni New York. Tökur á nýju þáttunum hefjast í vor.

Variety segir frá því að Parker, Nixon og Davis munu allar vera í hlutverki aðalframleiðanda þáttanna, ásamt Michael Patrick King.

Þær Parker, Nixon og Davis deildu allar sama myndskeiðinu á samfélagsmiðlum í gær, þar sem sterklega var gefið í skyn að von væri á fleiri þáttum.

Darren Star skapaði sjónvarpsþættina Sex and the City sem byggðu á samnefndri bók Candace Bushnell frá árinu 1997. Þættirnir voru á dagskrá HBO frá árinu 1998 til 2004. Árið 2008 og svo 2010 voru svo frumsýndar tvær kvikmyndir um líf kvennanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×