Sex tilkynningar hafa nú borist lyfjastofnun um alvarleg atvik, þar af fimm andlát, þar sem um var að ræða hugsanlegar aukaverkanir af bólusetningu Comirnaty, bóluefnis Pfizer og BioNTech.
Haft er eftir Rúnu Hauksdóttur Hvannberg, forstjóra Lyfjastofnunar, í frétt RÚV, að metið verði hvort andlátið geti tengst bólusetningunni. Meira en vika sé liðin á milli bólusetningarinnar og andlátsins.
Tilkynnt var á þriðjudaginn að tveir sérfróðir og óháðir læknar á sviði öldrunar muni rannsaka gaumgæfilega þessi alvarlegu atvik sem hafa verið tilkynnt Lyfjastofnun. Stefnt sé að því að frumniðurstöður liggi fyrir innan viku til tíu daga.
Tilgangur rannsóknarinnar sé að meta hvort líklegt sé að atvikin tengist bólusetningunni eða hvort þau tengist undirliggjandi sjúkdómum. Eins og sakir standa bendir ekkert til þess að beint orsakasamhengi sé á milli atvikanna og bólusetningarinnar.