Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilsugæslunni, sem haft hefur umsjón með bólusetningu við kórónuveirunni á höfuðborgarsvæðinu. Fram hefur komið að starfsfólk heilsugæslunnar hafi náð fimm skömmtum af bóluefni úr hverju glasi, sem er sá skammtafjöldi sem Pfizer mælir með.
Starfsfólk Landspítala náði hins vegar 5,4 skömmtum úr hverju glasi, að því er fram kom í máli Ölmu Möller landlæknis á upplýsingafundi almannavarna í gær.
Hlíf Steingrímsdóttir, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs á Landspítalanum, sagði í samtali við Ríkisútvarpið í gær að starfsfólk spítalans hefði náð þessu með því að viðhafa „sitt venjulega verklag“. Því sem náðist aukalega úr hverju glasi hefði verið blandað saman.
„Við ákváðum að viðhafa bara hefðbundið verklag í blöndun hjá okkur, þegar við erum að meðhöndla svona dýr lyf og verðmæt, þar er þrautþjálfað starfsfólk sem er í þessu allan daginn og hefur mikla þekkingu og færni í þessu,“ sagði Hlíf við Ríkisútvarpið.
Starfsfólk heilsugæslunnar hafi mikla reynslu
Heilsugæslan segir í tilkynningu í dag að ekki sé ráðlagt að safna milli glasa til að tryggja stöðugleika bólefnis. Ef heill skammtur náist hins vegar úr glasinu sé notkun leyfð. Þetta staðfesti Lyfjastofnun, sóttvarnalæknir og Pfizer.
Bólusetning heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu hafi gengið mjög vel. Starfsfólk hafi mikla reynslu af bólusetningum og meðhöndlun bólusefnis.
„Umræðan á því ekki að snúast um færni, heldur hvort farið er eftir leiðbeiningum. Viljum við þakka öllu okkar starfsfólki, öðrum stofnunum og fyrirtækjum sem komu að þessu ferli fyrir góða samvinnu.“
Undirbúningur sé þegar hafinn að næstu bólusetningu. Heilsugæslan muni halda áfram að vinna samkvæmt bestu þekkingu og þeim leiðbeiningum markaðsleyfishafa sem eru í gildi hverju sinni.