Erlent

Sjötti sem finnst látinn í Ask

Atli Ísleifsson skrifar
Leirskriðurnar féllu síðastliðinn miðvikudag.
Leirskriðurnar féllu síðastliðinn miðvikudag. EPA

Björgunarlið í Ask í Noregi hafa nú fundið sex látna á hamfarasvæðinu í norska bænum Ask eftir að leirskriður féllu í bænum á miðvikudaginn. Fjögurra er enn saknað.

Lögregla greindi frá því fyrir skemmstu að sjötta líkið hafi fundist um miðjan dag í dag. Björgunaraðgerðir muni halda áfram í kvöld og í nótt.

Leitarsvæðið hefur verið stækkað nokkuð frá því sem var og hefur lögregla sagt að enn sé haldið í vonina um að einhver finnist á lífi, þó hún dvíni með hverjum deginum sem líður.

Björgunaraðilar hafa notið liðsinnis norska hersins við leitina, og þá hafa starfsmenn almannavarna dælt vatni úr tjörn sem hefur byrjað að renna inn á hamfarasvæðið og þannig torveldað leitina enn frekar.

Haraldur Noregskonungur og Sonja drottning, auk Hákons krónprins, heimsóttu Ask í morgun og ræddu meðal annars við fólk sem missti allt sitt í hamförunum.


Tengdar fréttir

Fimmta líkið fannst í nótt

Alls hafa fimm lík fundist í rústunum eftir leirskriðuna í bænum Ask í Noregi. Fimmta líkið fannst seint í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×