Brasilíski knattspyrnumaðurinn Philippe Coutinho gekkst undir aðgerð á hné í gær eftir að hafa orðið fyrir meiðslum í leik Barcelona gegn Eibar í spænsku úrvalsdeildinni þann 29.desember síðastliðinn.
Í yfirlýsingu spænska stórveldisins segir að aðgerðin hafi gengið vel en jafnframt kemur fram að reiknað sé með að Coutinho verði frá næstu þrjá mánuðina.
Meiðsli hafa verið tíð í leikmannahópi Barcelona á yfirstandandi leiktíð en Coutinho er nú kominn á meiðslalistann ásamt þeim Gerard Pique, Ansu Fati og Sergi Roberto.
Barcelona hefur verið í miklum vandræðum í spænsku úrvalsdeildinni á tímabilinu þar sem liðið hefur aðeins unnið sjö af fyrstu fimmtán leikjum sínum.