Erlent

Bretar form­lega gengnir úr Evrópu­sam­bandinu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, skrifar undir viðskiptasamning Bretlands og Evrópusambandsins í Brussel. Samningurinn tók gildi á miðnætti í nótt.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, skrifar undir viðskiptasamning Bretlands og Evrópusambandsins í Brussel. Samningurinn tók gildi á miðnætti í nótt. Getty/Leon Neal

Bretland hefur formlega segið skilið við Evrópusambandið en Bretar yfirgáfu innri markað sambandsins og tollabandalagið klukkan ellefu í gærkvöldi. Þetta markar nýtt tímabil í sögu Bretlands en það hefur verið aðili að Evrópusambandinu, og þar áður Evrópubandalaginu, frá 1. janúar 1973.

Brexit-ferlið, eins og það er kallað, hefur verið nokkuð langt en það hófst eftir að niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um málið var haldin árið 2016. Frá því að niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar lágu fyrir hafa Bretar átt í ströngum viðræðum við Evrópusambandið um gerð viðskiptasamnings sem taka ætti gildi eftir að Bretar yfirgæfu sambandið.

Samkomulag um viðskiptasamning Breta og ESB náðist á aðfangadag eftir tíu mánaða viðræður. Breska þingið samþykkti samninginn þann 30. desember síðastliðinn. Framkvæmdastjórn og leiðtogaráð ESB skrifuðu undir samninginn samdægurs og tók samningurinn gildi strax um áramót.

Breska ríkisútvarpið hefur eftir Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, að Bretland hafi frelsið og getuna til þess að gera hlutina „öðruvísi og betur,“ nú þegar Brexit ferlið er formlega afstaðið.

Þó eru ekki allir jafn ánægðir með það að Bretland hafi yfirgefið ESB en Nicola Sturgeon, forsætisráðherra Skotlands, tísti í gærkvöldi: „Skotland snýr fljótt aftur Evrópa. Látið ljósið skína áfram.“

Bretland sagði opinberlega skilið við Evrópusambandið þann 31. janúar 2020 en við tók ellefu mánaða aðlögunartímabil á meðan ESB og Bretland sátu við samningsborðið í von um að ná að gera viðskiptasamning sín á milli.


Tengdar fréttir

Copy/Paste í Brexit-díl: Nýr samningur, úreltur texti

Grunur leikur á að kaflar í nýjum samningi Bretlands og Evrópusambandsins hafi verið teknir í heilu lagi úr gömlum lögum eða samningum, þar sem í þeim má finna tilvísanir í úrelta tækni á borð við Netscape Communicator og 1024-bita RSA dulkóðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×