Erlent

Karl Bretaprins kominn úr einangrun

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Karl Bretaprins var í sjö daga einangrun eftir að hann greindist með veiruna.
Karl Bretaprins var í sjö daga einangrun eftir að hann greindist með veiruna. Vísir/Getty

Karl Bretaprins, sonur Elísabetar Englandsdrottningar, er nú kominn úr einangrun, en hann greindist fyrir viku síðan með kórónuveiruna COVID-19.

Í frétt BBC af málinu segir að Karl hafi sýnt væg einkenni og væri við góða heilsu. Eiginkona hans. Camilla Parker-Bowles, hafi verið prófuð fyrir veirunni, en reynst neikvæð. Hún verður þó í sóttkví út þessa viku.

Samkvæmt þeim tilmælum sem bresk heilbrigðisyfirvöld hafa gefið út skulu þeir sem greinast með veiruna sæta einnar viku einangrun frá því þeir greinast. Aðrir sem hafa umgengist smitaðan einstakling fara í tveggja vikna sóttkví, líkt og viðgengst hér á landi.

Samkvæmt upplýsingum frá Buckingham-höll, þar sem Elísabet drottning er til húsa, hitti hún Karl son sinn síðast þann 12. mars og hefur síðan þá verið við góða heilsu. Þannig eru litlar líkur taldar á að hún hafi smitast, enda greindist Karl þó nokkrum dögum síðar.

Alls hafa 22.141 tilfelli kórónuveirunnar verið staðfest í Bretlandi og 1408 látist af völdum COVID-19. 135 hafa þá náð sér af veirunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×