Innlent

Valgerður dregur uppsögn sína til baka

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, hefur dregið uppsögn sína til baka.
Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, hefur dregið uppsögn sína til baka. vísir/baldur

Valgerður Rúnarsdóttir, forstjóri Sjúkrahússins Vogs og framkvæmdastjóri lækninga hefur dregið uppsögn sína til baka. Þá hefur framkvæmdastjórn SÁÁ dregið til baka uppsagnir þeirra átta starfsmanna sem sagt var upp um síðustu mánaðamót.

Þetta kemur fram á vef SÁÁ.

„Þetta var góð niðurstaða hjá framkvæmdastjórn samtakanna,“ er haft eftir Valgerði í tilkynningu frá samtökunum. „Við hjá SÁÁ höfum mikið verk að vinna og það er hugur í starfsfólkinu sem stendur saman í þrengingunum sem eru fyrirséðar þetta árið.“

Formaður SÁÁ, Arnþór Jónsson, segist fagna ákvörðun Valgerðar.

„Hún hefur nú óbundnar hendur við þær sparnaðaraðgerðir sem nauðsynlegar eru til að tryggja greiðsluhæfni félagsins,“ er haft eftir honum.

Hann segist þá telja að með ákvörðuninni megi tryggja starfsfrið og áframhaldandi árangur af meðferðarstarfsemi SÁÁ.

Sagði upp í kjölfar uppsagna án samráðs við hana

Þann 26. mars sagði Valgerður upp störfum eftir að áðurnefndum átta starfsmönnum, flestum sálfræðingum, var sagt upp af stjórn SÁÁ án samráðs við hana eða aðra yfirmenn. 

Í kjölfarið skapaðist nokkur ólga innan samtakanna, sem leiddi meðal annars til þess að þrír meðlimir framkvæmdastjórnar SÁÁ sögðu sig úr stjórninni. Þá lýstu fjölmargir óánægju sinni með starfslok Valgerðar og höfðu gott eitt um hana að segja.

Hér má svo nálgast allar fréttir Vísis af málinu, í tímaröð.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×