Fótbolti

Ráðinn í fyrsta starfið eftir að hafa sakað sam­herja Frederiks um veð­mála­svindl

Anton Ingi Leifsson skrifar
Christian er þjálfari danska C-deildarliðsins Hillerod en þjálfaði áður íslenska markvörðinn Frederik Schram hjá Roskilde.
Christian er þjálfari danska C-deildarliðsins Hillerod en þjálfaði áður íslenska markvörðinn Frederik Schram hjá Roskilde. Jan Christensen/Getty

Christian Lønstrup hefur verið ráðinn þjálfari 2. deildarliðsins Hillerød í Danmörku en hann þjálfaði meðal annars Frederik Schram hjá Roskilde.

Þetta er fyrsta þjálfarastarf Lønstrup eftir að allt fór í bál og brand er hann þjálfaði Roskilde. Þar hætti hann í maímánuði árið 2019 og það endaði fyrir dómstólum.

Eftir einn leikinn sakaði nefnilega Lønstrup ákveðna leikmenn félagsins um að vinna gegn félaginu. Hann hafði heyrt af því að þeir hefðu veðjað á leikina og vísvitandi tapað þeim.

Málið fór alla leið fyrir dómstóla en eins og áður hefur Lønstrup ekki þjálfað síðan þá. Frederik Schram, íslenski markvörðurinn, spilaði með Roskilde á þeim tíma en hann er ekki talinn einn af leikmönnunum sem um ræðir.

„Roskilde hefur tekið mikla orku en nú er ég glaður að einbeita mér að fótboltanum á nýjan leik. Eftir að ég hætti þar hefur mig hlakkað mikið til og ég er mjög hungraður,“ sagði Lønstrup í samtali við TV2 Sport.

Hillerød er í sjöunda sæti dönsku C-deildarinnar en Lønstrup stýrði Roskilde í B-deildinni með fínum árangri.

Frederik er í dag á mála hjá Lyngby í dönsku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×