Innlent

Dreifing bólu­efnisins hafin á lands­byggðinni

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bóluefnið kom til landsins í tveimur kössum í gær, undir vökulum augum sérsveitarmanna.
Bóluefnið kom til landsins í tveimur kössum í gær, undir vökulum augum sérsveitarmanna. Vísir/Vilhelm

Dreifing bóluefnis Pfizer á landsbyggðina hófst í morgunsárið en fyrsta sendingin fer á 21 stað úti á landi.

Jónar Transport sjá um dreifingu bóluefnisins á landsbyggðinni en í tilkynningu frá þeim segir að bílar fyrirtækisins keyri nú á Vestfirði, Suðurland, Norðurland og Austurland auk þess sem það verður flogið með bóluefnið á Egilsstaði þaðan sem því verður svo dreift sem og á Bíldudal.

„Það var afar ánægjulegt að fylgja fyrstu sendingunum úr hlaði í morgun og það þarf ekki að hafa mörg orð um mikilvægi þessa bólusetningarverkefnis fyrir heilsu Íslendinga og í kjölfarið fyrir lífsgæði okkar og efnahag. Eftir 8 vikna þrotlausan undirbúning er gleðilegt að vera bæði búinn að taka við fyrstu sendingunni og jafnframt koma henni af stað til viðtakenda, bæði í borg og á landsbyggð,“ er haft eftir Kristni Pálssyni framkvæmdastjóra Jónar Transport í tilkynningu.

Bólusetning gegn Covid-19 hér á landi hófst klukkan níu í dag þegar fjórir heilbrigðisstarfsmenn voru bólusettir. Hægt er að fylgjast með bólusetningunni í beinni útsendingu hér á Vísi.

Klukkan tíu verður svo Þorleifur Hauksson, íbúi á hjúkunarheimilinu Seljahlíð, bólusettur og verður einnig hægt að fylgjast með því í beinni á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×