Erlent

Nýja afbrigðið greindist í Frakklandi

Sylvía Hall skrifar
Afbrigðið hefur fundist í fleiri löndum en Bretlandi. Þó það sé meira smitandi er það ekki talið hættulegra að öðru leyti. 
Afbrigðið hefur fundist í fleiri löndum en Bretlandi. Þó það sé meira smitandi er það ekki talið hættulegra að öðru leyti.  Getty

Nýja afbrigði kórónuveirunnar sem hefur náð að dreifa sér víða á Bretlandseyjum hefur greinst í Frakklandi. Þetta staðfesti franska heilbrigðisráðuneytið, en sá sem greindist er franskur ríkisborgari sem hafði komið frá Lundúnaborg þann 19. desember.

Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins en afbrigðið sem um ræðir er talið vera allt að sjötíu prósent meira smitandi en önnur afbrigði veirunnar. Þó bendir ekkert til þess að það sé hættulegra eða fólk veikist meira vegna þess.

Einstaklingurinn sem greindist í Frakklandi var einkennalaus við greiningu og er nú í einangrun á heimili sínu í bænum Tours. Hann fór í sýnatöku þann 21. desember.

Afbrigðið hefur einnig fundist í fleiri ferðalöngum frá Bretlandi. Japan staðfesti á föstudag að fimm hefðu greinst með afbrigðið eftir að hafa dvalið í Bretlandi og áður hafði verið staðfest að afbrigðið hefði fundist í Danmörku, Ástralíu og Hollandi. Fyrr í desember hafði afbrigðið fundist hér á landi hjá einstaklingi í landamæraskimun.

„Þetta eru lönd sem eru ekki með neinar aðgerðir á landamærunum. Hér á Íslandi erum við með tvöfalda skimun og við höfum fundið einn einstakling með þessa veiru fyrr í desember. Hann fór bara í einangrun og það varð ekkert meira úr því,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við Vísi.

Ýmis lönd höfðu gripið til þeirra ráða að takmarka eða stöðva allar samgöngur frá Bretlandi eftir að afbrigðið fannst, en áður höfðu hertar aðgerðir verið tilkynntar á þeim svæðum þar sem það var í dreifingu. Frakkland var á meðal þeirra ríkja sem lokaði landamærum sínum en aflétti því á miðvikudag, með þeim skilyrðum að fólk framvísaði neikvæðri niðurstöðu úr sýnatöku fyrir brottför.

Þá hefur útgöngubanni verið aflétt í Frakklandi en yfirvöld telja smitstuðulinn ekki nægilega lágan til þess að grípa til frekari tilslakana. Því eru leik- og kvikmyndahús enn lokuð, sem og öldurhús og veitingastaðir. Þá má fólk ekki vera á ferðinni milli klukkan 20:00 og 06:00.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×