Þetta kemur fram á vef Fréttablaðsins. Blaðið hefur eftir kára að viðræður hans við framleiðendur séu „á eins yfirborðskenndu stigi og hægt er“ og að ekkert sé öruggt í þessum efnum. Um sé að ræða tilraun til þess að tryggja Íslendingum bóluefni fyrr en seinna.
„Hvort það tekst eða ekki er algjörlega óvíst en ég er á bólakafi í að reyna það,“ hefur blaðið eftir Kára, sem segir að ein leið gæti verið að rannsaka áhrif bóluefnis hér á landi í samstarfi við framleiðendur. Óljóst sé þó hvort framleiðendur eigi afgangsbóluefni til að sjá af í slíka rannsókn.
Gagnrýnir ekki Svandísi
Kári telur samstarf Íslands við Evrópusambandið um kaup á bóluefni að einhverju leyti undarlegt. Honum virðist sambandið hreyfa sig á „skringilegan máta“ í þeim efnum og það kunni að hafa veðjað á ranga hesta í bóluefnakapphlaupinu. Ísland þjáist nú fyrir það veðmál.
Kári tekur hins vegar fram í viðtalinu að hann sé ekki að gagnrýna nálgun Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra á bóluefnamál. Hann telji hins vegar að hagsmunum Íslands sé ekki endilega best borgið með Evrópusambandinu þegar kemur að því að semja um kaup á bóluefni.
Kári segir ómögulegt að segja til um hvort nokkuð komi út úr viðræðum hans við lyfjaframleiðendur. Hann vilji einfaldlega nýta tíma sinn og sambönd, en hann kom meðal annars á fundi Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og yfirmanns bóluefnadeildar Pfizer síðastliðinn mánudag.