Hér fyrir neðan má finna uppskriftirnar úr fjórða þætti af Jólaboð Evu.

Piparkökutriffli með saltaðri karamellusósu
- 400 g piparkökur
- 500 g vanilluskyr
- 400 ml rjómi, þeyttur
- 2 msk flórsykur
- Söltuð karamellusósa, uppskrift hér að neðan
Aðferð:
- Best er að byrja á því að útbúa saltaða karamellusósu og kæla hana á meðan þið undirbúið afganginn.
- Myljið piparkökur þar til þær eru orðnar að fínni mylsnu.
- Þeytið rjóma og blandið skyrinu saman við, setjið einnig flórsykur saman við og það má líka bæta vanilludropum út í.
- Setjið piparkökumylsnu í eitt stórt fat eða glös, setjið um það helming af mylsnunni og setjið síðan skyrblöndu og því næst karamellusósu. Endurtakið leikinn einu sinni eða þar til hráefnið er búið.
- Kælið trifflið í nokkrar klukkustundir, frábært yfir nótt.
Söltuð karamellusósa
- 150 g sykur
- 4 msk smjör
- 2 dl rjómi rjómi
- sjávarsalt á hnífsoddi
Aðferð:
- Bræðið sykur á pönnu við vægan hita, best að hafa alls ekki háan hita og fara hægt af stað.
- Takið pönnuna af hellunni þegar sykurinn er allur bráðinn og bætið smjörinu saman við í nokkrum skömmtum.
- Hellið rjómanum út í karamelluna og hrærið þar til karamellan er orðin þykk og fín.
- Í lokin bætið þið saltinu saman við.
- Leyfið sósunni að kólna alveg.

Sjávarrétta tartalettur
- 1 msk ólífuolía + 1 msk smjör
- 5 sveppir
- 5 aspas stönglar
- 1 hvítlauksrif
- 400 g blandaðir sjávarréttir
- 500 ml rjómi
- Salt og pipar
- ½ sveppakraftsteningur
- 2 msk smátt söxuð steinselja
- Tartalettu skeljar
Aðferð:
- Hitið ofninn í 180°C.
- Hitið olíu og smjör á pönnu.
- Skerið sveppi og aspas smátt, steikið á pönnu og bætið rifnu hvítlauksrifi út á pönnuna.
- Skolið og þerrið sjávarréttina, setjið út á pönnuna og steikið í smá stund.
- Hellið rjómanum út á og kryddið vel með salti, pipar og smátt saxaðari steinselju.
- Bætið hálfum sveppakraftstening út í og leyfið sósunni að malla smávegis.
- Skiptið blöndunni niður í tartalettu skeljar og setjið inn í ofn við 180°C í nokkrar mínútur.
- Berið strax fram og njótið vel!

Snittur með ljúffengu þeyttu ostakremi
- 1 baguette
- 1 msk ólífuolía
- 400 g hreinn rjómaostur
- 1 krukka fetaostur
- Salt og pipar
- 1 msk smátt söxuð steinselja
Tillögur að áleggi:
- Steikt hráskinka, klettasalat og parmesan
- Reyktur lax og dill
- Kirsuberjatómatar, basilíka og ólífuolía
Aðferð:
- Skerið baguette brauðið í jafn stórar sneiðar, hitið olíu á pönnu og steikið í smá stund á báðum hliðum þar til brauðið er stökkt.
- Setjið rjómaost, fetaost en munið að hella olíunni sem er í krukkunni frá og steinselju í matvinnsluvél. Kryddið til með salti og pipar.
- Smyrjið ostakreminu á stökka baguette brauðið og setjið allskyns góðgæti á brauðið.
