Michel Barnier, aðalsamningamaður Evrópusambandsins, er mættur til Lundúna og segir allt kapp lagt á það að ná samningi. Enn eigi eftir að ná samkomulagi um veigamikil atriði og segir Dominic Raab, utanríkisráðherra Bretlands, að vikan fram undan skipti sköpum.
„Þetta er mjög þýðingarmikil vika, þetta er síðasta stóra vikan,“ sagði Raab í samtali við fréttamenn í dag. „Við eigum bara eftir að leysa úr tveimur kjarnaatriðum.“
Ef samningar nást ekki fyrir lok árs fer verslun milli Bretlands og annarra Evrópusambandsríkja eftir reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og tollar lagðir á ýmsar vörur. Samningurinn þarf að vera samþykktur af bæði Evrópuþinginu og breska þinginu og því ljóst að samningsaðilar hafa stuttan tíma ef það á að nást fyrir 31. desember.
Á meðal þeirra atriða sem enn á eftir að ná samkomulagi um er stjórnun á fiskimiðum. Hingað til hafa Bretar hafnað tillögum Evrópusambandsins og telja sjálfstæðar þjóðir verða að hafa fulla stjórn á fiskimiðum sínum.
„Evrópusambandið verður að horfast í augu við grundvallarpunktinn í þessu,“ sagði Raab.