Sport

Heimsmeistararnir leiddust í mark í lokagrein heimsleikanna í CrossFit

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mathew Fraser og Tia-Clair Toomey kom hönd í hönd í markið í síðustu greinni.
Mathew Fraser og Tia-Clair Toomey kom hönd í hönd í markið í síðustu greinni. Twitter/@CrossFitGames

Mathew Fraser og Tia-Clair Toomey unnu bæði yfirburðasigur á heimsleikunum í CrossFit í gær og héldu því glæsilegri sigurgöngu sinni áfram.

Mathew Fraser var að vinna sinn fimmta heimsmeistaratitil í röð í karlaflokki og Tia-Clair Toomey vann sinn fjórða heimsmeistaratitil í röð í kvennaflokki.

Þau Fraser og Toomey voru bæði hins vegar búin að tryggja sér heimsmeistaratitilinn fyrir síðustu greinina og tóku þá ákvörðun að klára hana hlið við hlið. Heimsmeistararnir leiddust því yfir marklínuna í lokagrein heimsleikanna í ár.

Hér fyrir neðan má sjá þau koma í mark í síðusutu greininni á þessum þremur svakalega erfiðu og krefjandi dögum.

Mathew Fraser og Tia-Clair Toomey æfðu saman í aðdraganda heimsleikanna og nutu greinilega góðs af því þar sem enginn átti möguleika í þau. Þau studdu líka við bakið á hvoru öðru alla keppnina.

Tia-Clair Toomey fékk alls 1025 stig eða 360 stigum meira en Katrín Tanja Davíðsdóttir sem tók annað sætið í keppninni. Toomey vann alls níu greinar af tólf.

Mathew Fraser fékk alls 1150 stig eða 545 stigum meira en næsti maður sem var Samuel Kwant. Fraser vann alls tíu greinar af tólf.

Lokagreinin var rosalega erfið eins og Dave Castro hjá CrossFit var búinn að auglýsa því keppendur þurftu þá að hlaupa og gera alls konar erfiðar æfingar með þyngingarvestum en það tók þá um fimmtíu mínútur að klára hana.

Mathew Fraser vann lokagreinina í karlaflokki en Tia-Clair Toomey varð þriðja hjá konunum á eftir Katrínu Tönju Davíðsdóttur og Kari Pearce.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×