Sport

Katrín Tanja fjórða eftir flottan endasprett í fyrstu greininni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Tanja Davíðsdóttir í róðrarvélinni í dag.
Katrín Tanja Davíðsdóttir í róðrarvélinni í dag. Skjámynd/Youtube

Katrín Tanja Davíðsdóttir byrjaði ekki nógu vel í fyrstu grein á ofurúrslitum heimsleikanna í CrossFit. Hún átti hins vegar flottan endasprett og slapp við síðasta sætið. Tia-Clair Toomey og Mathew Fraser unnu sannfærandi sigur.

Katrín Tanja Davíðsdóttir varð fjórða í fyrstu grein í ofurúrslitum heimsleikanna eftir flottan endasprett þar sem hún komst fram úr vinkonu sinni Brooke Wells. Katrín Tanja fékk því 35 stig í stað 15 stiga sem Brooke Wells varð að sætta sig við.

Katrín Tanja kláraði fyrstu greinina á 15.16;76 mínútum en Brooke Wells. kláraði 15:45,13 mínútum.

Tia-Clair Toomey er búin að verða heimsmeistari undanfarin þrjú ár og hún vann sannfærandi sigur í fyrstu greininni.

Fyrri hluti fyrstu greinarinnar voru 1500 metrar í róðrarvélinni. Hin nítján ára gamla Haley Adams byrjaði best og kláraði fyrst. Katrín Tanja var síðust til að byrja á seinni hlutanum og dróst ennþá meira aftur úr eftir það.

Í seinni hlutanum þá tóku við fimm umferðir með tíu upplyftingum á stöng (muscle-ups) og sjö lóðalyftur frá öxl og upp fyrir haus (shoulder-to-overheads). Þyngdin var tæp 66 kíló hjá konunum.

Tia-Clair Toomey var búinn að taka forystuna eftir fyrstu umferðina og stakk síðan algjörlega af. Haley Adams hélt öðru sætinu. Tia kláraði á 12:47,98 mín. en Haley á 13.17.79 mín.

Kari Pearce var örugg með þriðja sætið en það var mikil spenna í blálokin þegar Katrín Tanja kom til baka og kláraði á undan Brooke Wells.

Mathew Fraser hefur unnið heimsmeistaratitilinn undanfarin fjögur ár og hann byrjaði úrslitin á sannfærandi sigri í fyrstu grein.

Fraser kláraði fyrstu grein á þrettán mínútum og 07,02 sekúndum. Annar var landi hans Justin Medeiros sem endaði reyndar aðeins rúmum átta sekúndum eftir Fraser.

Fraser gerði smá mistök í einni af síðustu lyftunum en sigur hans var þó aldrei í mikilli hættu.

Samuel Kwant náði einnig að klára á innan við fjórtán mínútum, Kanadamaðurinn Jeffrey Adler varð fjórði.

Noah Ohlsen varð síðan fimmti, rúmum tveimur og hálfri mínútu á eftir fjórða sætinu. Hann náði þó að klára og fékk því sín fimmtán stig en hann annars hefði hann ekki fengið neitt stig.

Stig eftir fyrstu grein í kvennaflokki:

  • 1. Tia-Clair Toomey, Ástralíu 100 stig
  • 2. Haley Adams, Bandaríkjunum 75 stig
  • 3. Kari Pearce, Bandaríkjunum 55 stig
  • 4. Katrín Tanja Davíðsdóttir, Íslandi 35 stig
  • 5. Brooke Wells, Bandaríkjunum 15 stig

Stig eftir fyrstu grein í karlaflokki:

  • 1. Mathew Fraser, Bandaríkjunum 100 stig
  • 2. Justin Medeiros, Bandaríkjunum 75 stig
  • 3. Samuel Kwant, Bandaríkjunum 55 stig
  • 4. Jeffrey Adler, Kanada 35 stig
  • 5. Noah Ohlsen, Bandaríkjunum 15 stig



Fleiri fréttir

Sjá meira


×