Sport

Fengu að fara inn í CrossFit-búbbluna og hittu á Katrínu Tönju í sýnatöku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Tanja Davíðsdóttir þurfti að fara í kórónveirusmitpróf áður en hún fékk fullt aðgengi að CrossFit búbblunni.
Katrín Tanja Davíðsdóttir þurfti að fara í kórónveirusmitpróf áður en hún fékk fullt aðgengi að CrossFit búbblunni. Skjámynd/Youtube

Buttery Bros verða með myndavélarnar á lofti þegar heimsleikarnir fara fram næstu þrjá daga og þeir hafa þegar sent frá sér fyrsta myndbandið af lífinu í CrossFit-búbblunni.

Katrín Tanja Davíðsdóttir og besta CrossFit fólk heimsins byrjar í dag eltingarleikinn við heimsmeistaratitlana í CrossFit. Fyrsta grein heimsleikanna fer fram klukkan þrjú í dag að íslenskum tíma sem er eldsnemma að morgni á staðartíma í Kaliforníu.

Keppendur hafa verið í CrossFit búbblunni alla þessa viku til að venjast aðstæðum en í dag er komið að alvörunni. Næstu dagar munu heldur betur reyna á form og andlegan styrk keppenda sem eru bara fimm í hvorum flokki.

Buttery Bros eða Smjörstrákarnir eins og við viljum kalla þá hafa verið að heimsækja keppendur í ofurúrslitum heimsleikanna á undanförnu og nú vitum við af hverju. CrossFit samtökin völdu þá til að gera heimildaþætti um það sem gerist á bak við tjöldin á heimsleikunum í ár.

Smjörstrákarnir eru Heber Cannon og Marston Sawyers. Þeir hafa sent frá sér fyrsta Buttery Bros myndbandið eftir að þeir fengu að fara inn í CrossFit búbbluna.

Strákarnir prófuðu sjálfir sandpokabrekkuhlaupið sem mun reyna mikið á keppendur og þá þurftu þeir að sjálfsögðu að fara í smitpróf eins og aðrir í búbblunni.

Strákarnir hittu Katrínu Tönju bæði í sýnatöku sem og í sundlauginni. Katrín Tanja og andstæðingar hennar hafa fengið að kynnast keppnisstöðunum vel undanfarna daga og þá hafa farið fram fundir með skipuleggjendum leikanna svo allt sé á hreinu.

Hér fyrir neðan má sjá þetta myndband þegar Smjörstrákarnir mættu til Aromas í Norður Kaliforníu og stungu sér á gaf í CrossFit búbbluna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×