Sport

Katrín Tanja um bakmeiðslin í byrjun árs: Ég gat ekki einu sinni farið í jóga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Tanja Davíðsdóttir að lýsa árinu sínu í viðtalinu.
Katrín Tanja Davíðsdóttir að lýsa árinu sínu í viðtalinu. Skjámynd/Youtube

Katrín Tanja Davíðsdóttir hefur gengið í gegnum margt á árinu 2020 og þá erum við bæði að tala um það líkamlega og það andlega. Katrín Tanja ræddi árið 2020 í aðdraganda lokaúrslita heimsleikanna sem hefjast í Kaliforníu í dag.

„Ég byrjaði tímabilið með brjósklos í bakinu og ég gat ekki hreyft mig,“ sagði Katrín Tanja Davíðsdóttir og ástandið var slæmt. Hún hætti við keppni á móti Dúbaí í desember og staðan var ekki góð.

„Ég gat ekki einu sinni farið í jóga og það kom tímabil sem ég hélt að bakið mitt væri ónýtt. Ég gat ekki einu sinni lyft púðunum til að búa um rúmið mitt,“ sagði Katrín Tanja en það var bara byrjunin á þessu ótrúlega ári.

„Svo kom Covid og ég hef ekki hitt fólkið mitt heima á Íslandi síðan í janúar. Síðan tók við allt sem var að gerast í CrossFit heiminum. Það er samt góður endir,“ sagði Katrín Tanja brosandi. Hún tók af fullum krafti þátt í því að kalla eftir breytingum í CrossFit samtökunum og rödd hennar hafði mikið að segja í baráttunni fyrir betri forystu.

Fram undan er rosalega keppni milli fimm bestu CrossFit kvenna heims.

„Keppnin verður alltaf harðari á hverju ári og ég þarf bara að koma mér á það stig líka. Ég elska að keppa og það er uppáhaldið mitt. Ég hreinlega elska góða keppni,“ sagði Katrín.

„Uppáhaldsgreinararnar mínar í gegnum tíðina hafa ekkert með það að gera hvort ég hafi unnið þær eða ekki heldur miklu frekar hvort ég hafi verið í góðri keppni við einhvern,“ sagði Katrín.

Katrín Tanja fagnar því að heimsleikarnir fari nú fram heima í Norður-Kaliforníu þar sem CrossFit byrjaði í byrjun aldarinnar.

„Þegar ég byrjaði í CrossFit þá varð ég alveg heltekin af CrossFit. Það er því mjög sérstakt fyrir mig að koma þangað þar sem þetta allt byrjaði,“ sagði Katrín Tanja en ofurúrslitin fara meðal annars fram á CrossFit búgarðinum í Aromas.

„Þetta eru heimsleikarnir og þeir eiga að vera sérstakir því við erum að æfa fyrir þá allt árið. Ég er mjög spennt fyrir því að fá að keppa. Ég trúi því að það sé ástæða fyrir því að við göngum í gegnum allt en þetta ár er án efa erfiðasta árið mitt,“ sagði Katrín.

„Hvað varðar andlega hlutinn þá veit ég alveg hver ég er og hvað ég get. Ég held ekki að ég geti þetta því ég veit að ég geta það af því að ég hef farið í gegnum allar þessar áskoranir,“ sagði Katrín Tanja en það má allt viðtalið við hana hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×