Erlent

Hertar reglur á Ítalíu vegna fjölgunar smita

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, tilkynnti um hertar reglur í gær.
Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, tilkynnti um hertar reglur í gær. Getty/Simona Granati - Corbis

Ítölsk stjórnvöld hafa innleitt fjölda nýrra reglna til að bregðast við uppgangi kórónuveirunnar þar í landi.

Í gær var tilkynnt um rúmlega 11.700 ný smit í landinu en fyrra met hafði verið sett daginn áður þegar smitin voru tæplega 11.000.

Ítalía fór einna verst út úr fyrstu bylgju faraldursins í Evrópu og þar hafa nú 414 þúsund smitast af veirunni og 36.500 dáið, sem er hæsta dánartala Evrópu, að Bretlandi undanskildu.

Forsætisráðherrann Guiseppe Conte segir nýju aðgerðirnar nauðsynlegar, ætli menn sér að koma í veg fyrir algjört útgöngubann, en í þeim er borgarstjórum gefið leyfi til að loka almenningssvæðum eftir klukkan níu á kvöldin auk þess sem þrengt verður að opnunartíma veitingastaða og fjöldatakmörk hert.

Þá er öllum íþróttaleikjum áhugamanna þar sem snerting frestað og skólahald hjá eldri nemendum grunnskóla verður meira í formi fjarkennslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×