Fótbolti

Íslensku strákarnir missa af leikjum liða sinna eftir smit landsliðsfélaga síns

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrik Sigurður Gunnarsson í leik með Brentford en enska félagið lánaði hann til  Viborg í dönsku b-deildinni.
Patrik Sigurður Gunnarsson í leik með Brentford en enska félagið lánaði hann til  Viborg í dönsku b-deildinni. Getty/Alex Burstow

Leikmenn íslenska 21 árs landsliðsins verða ekki með sínum félagsliðum í leikjum þeirra í dag.

Bæði Patrik Sigurður Gunnarsson og Stefán Teitur Þórðarson missa af leikjum sinna liða í dönsku b-deildinni í dag en það kemur til vegna þess að liðsfélagi þeirra í 21 árs landsliði Íslands greindist með kórónuveiruna við komuna til Danmerkur.

Elías Rafn Ólafsson, markvörður íslenska liðsins, er með kórónuveiruna en hann var jákvæður við smitpróf á landamærum Danmerkur þegar hann kom til baka úr landsliðsverkefni með íslenska 21 árs landsliðinu.

Elías Rafn Ólafsson verður að sjálfsögðu ekki með Fredericia í leik liðsins en tveir aðrir leikmenn í dönsku b-deildinni missa líka af leikjum sinna liða.

Viborg sagði frá því á samfélagsmiðlum sínum að íslenski markvörðurinn Patrik Sigurður Gunnarsson væri kominn í sóttkví og yrði því ekki í marki liðsins á móti Fremad Amager í dönsku B-deildinni í dag.

Patrik kom til Viborg á láni frá enska félaginu Brentford í síðasta mánuði og hefur spilað síðustu þrjá leiki Viborg sem er efst í dönsku b-deildinni.

Stefán Teitur Þórðarson er heldur ekki í leikmannahópi Silkeborg á móti Hvidovre í dag en hann var upphaflega í átján manna hóp. Stefán Teitur er væntanlega kominn í sóttkví eins og aðrir leikmenn íslenska 21 árs landsliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×