Hertar samkomutakmarkanir verða kynntar víða um Evrópu á næstu dögum en kórónuveirufaraldurinn er í miklum uppgangi víðast hvar í álfunni.
Á Ítalíu ætla yfirvöld að ræða hertar aðgerðir í dag en þar hafa staðfest tilfelli veirunnar ekki verið fleiri síðan í mars, eða rúmlega fimm þúsund á degi hverjum síðustu daga. Dauðsföll af völdum veirunnar eru þó mun færri nú en var í fyrstu bylgju faraldursins.
Á Grikklandi létust þó þrettán úr Covid 19 í gær og er það mesti fjöldi á einum degi frá upphafi faraldursins en þar í landi hafa 449 látist og rúmlega 22 þúsund smitast.
Í Frakklandi er álag á heilbrigðisstarfsfólk gríðarlegt og í nýrri könnun segjast 60 prósent heilbrigðisstarfsmanna við það að brenna út sökum álags.