Sport

Gælunafn Katrínar Tönju kom frá þjálfara hennar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Tanja Davíðsdóttir er þessa dagana á fullu að undirbúa sig fyrir ofurúrslit heimsleikanna.
Katrín Tanja Davíðsdóttir er þessa dagana á fullu að undirbúa sig fyrir ofurúrslit heimsleikanna. Instagram/@katrintanja

Íslenska CrossFit stjarnan Katrín Tanja Davíðsdóttir hefur fengið gælunafnið „Sled-dog“ eða sleðahundur í CrossFit heiminum.

Það er mjög bandarískt að finna skemmtileg viðurnefni eða gælunöfn á íþróttastjörnur sínar. Katrín Tanja  er risastjarna í CrossFit heiminum og ein af fimmtíu markaðsvænlegustu íþróttamönnum heims á glænýjum lista.

Í upphitun fyrir komandi ofurúrslit á heimsleikunum, þar sem fimm bestu konurnar keppa um heimsmeistaratitilinn, hafa sérfræðingarnir mikið að talað um sleðahundinn frá Íslandi og eiga þar við Katrínu Tönju.

Katrín Tanja fékk þetta gælunafn fyrir nokkrum árum og tók því fagnandi á sínum tíma enda koma það úr hennar innsta hring. Fyrir heimsleikana 2017 var hún meira að segja farin að markaðssetja „Sled-dog“ gælunafnið á bolum eins og sjá má að neðan.

Katrín Tanja birti nú mynd af sér í „Sled-dog“ bolnum sínum og sagði líka frá því hvaðan gælunafnið kom upphaflega.

„Sled-dog nafnið mitt kemur frá Ben Bergeron þjálfara sem sagði að ég væri eins og sleðahundur. Sleðahundar vilja alltaf vera að vinna og þeir vilja vera út að hlaupa. Þegar þeir eru bundnir niður og ekki að vinna þá líður þeim ömurlega,“ skrifaði Katrín Tanja sem hvatti aðra til að vera sleðahundar eins og hún

„Vertu eins duglegur og þú getur verið og elskaðu það sem þú gerir. Vertu sleðahundur,“ skrifaði Katrín Tanja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×