Hönnuðurinn Valdís Steinarsdóttir er á lokalista yfir þá hönnuði sem tilnefndir eru af Dezeeen.com sem nýstirni ársins. Íslendingar geta hjálpað Valdísi að vinna með því að taka þátt í kosningunni. Valdís er tilnefnd í flokknum Emerging design studio of the year.
„Það er ómetanlegt að fá þær viðurkenningar sem ég hef fengið í ár,“ segir Valdís í samtali við Vísi. Á árinu hefur hún meðal annars hlotið verðlaunin hönnuður ársins á hinum virtu Formex Nova verðlaunum. Valdís vakti líka mikla athygli á HönnunarMars í ár, með sýningunni ASMR U Ready? og með listaverkinu Torg í spegli á Lækjartorgi.

„Dezeen er einn stærsti hönnunarmiðill í heiminum í dag og þar er ótrúlega mikill heiður að vera á sama lista og hæfileikaríkustu hönnuðir heims.“
Kosningin fer fram á vef Dezeen og lokar fyrir atkvæði þann 12. október næstkomandi.
„Það er fyndið að hugsa til þess að þegar ég var að taka mín fyrstu skref sem hönnuður var eitt af mínu stærstu markmiðum að fá verkefnin mín birt á Dezeen. Þannig mér finnst þetta hálf óraunverulegt og ég er í ennþá að klípa mig í höndina yfir þessum þessari viðurkenningu, því bara það að vera tilnefnd er sigur fyrir mig.“
segir Valdís um tilnefninguna.

„Auk þess að dómarar munu velja sigurvegar er í fyrsta skipti í ár “Public Vote” sem þýðir að almenningur getur einnig kosið sinn hönnuð. Ég væri ofboðslega þakklát ef að fólk sæi sér fært að taka tíma úr deginum sínum til að kjósa mig.“
Hér fyrir neðan má sjá myndband þar sem Valdís sýnir hvernig hægt er að kjósa.