Um­fjöllun og við­töl: Stjarnan-Grinda­vík 106-86 | Stjarnan meistari meistaranna

Helgi Hrafn Ólafsson skrifar
Stjarnan - Grindavík, Geysisbikarinn, veturinn 2019 - 2020. Körfubolti.
Stjarnan - Grindavík, Geysisbikarinn, veturinn 2019 - 2020. Körfubolti.

Stjarnan er meistari meistaranna í körfubolta karla eftir sigur á Grindavík í Meistarakeppni KKÍ í kvöld. Leikurinn fór fram í Mathús Garðabæjar-höllinni í Garðabæ og endaði með nokkuð öruggum sigri heimamanna, 106-86.

Þetta var hörkuleikur á háu tempói allan fyrri hálfleikinn, enda skoruðu liðin 56 og 50 stig fyrir hálfleiksflautuna. Dagur Kár var sjóðandi heitur fyrir Grindavík (72% skotnýting í fyrri hálfleik) sem vantaði nokkra leikmenn, þ.á.m. stigamaskínuna Sigtrygg Arnar Björnsson og nýjustu viðbót þeirra gul- og bláklæddu, Kristinn Pálsson. Leikstjórnandinn knái varð að bera uppi stigaskor sinna manna og tókst það með prýði, enda með 21 stig á fyrstu 20 mínútunum. Stjarnan gat aldrei almennilega slitið sig frá gestunum í fyrri hálfleik þó að heimaliðið hafi nokkrum sinnum náð tveggja tölustafa forystu.

Leikurinn breyttist fyrir Grindavík þegar Ólafur Ólafsson fór út af eftir fimm mínútur í þriðja leikhluta. Óli Óla fékk dæmda á sig fjórðu villuna og mótmælti heldur harkalega að mati dómara svo hann uppskar tæknivillu, þá fimmtu. Stjarnan steig á bensíngjöfina og setti þó nokkuð mörg skot niður og munurinn var þá orðinn nærri því 20 stig. Þjálfarar beggja liða settu þó nokkra varamenn inn á völlinn seinustu mínútur þriðja fjórðungsins.

Lokaleikhlutinn var ekkert sérstaklega spennandi nema fyrir fjölskyldumeðlimi varamanna liðanna enda fengu ungir og óreyndir leikmenn liðanna að spreyta sig. Heimamennirnir í Garðabænum lokuðu leiknum í mestu makindum með 106-86 sigri og eru meistarar meistaranna.

Af hverju vann Stjarnan?

Stjarnan spilaði ágætlega mest allan leikinn en náði að slíta sig frá Grindavík í seinni hálfleik þegar að þeir fóru að spila betri vörn og þurftu ekki að loka á bæði Dag Kár og Óla Óla. Brotthvarf Óla Óla úr leiknum gerði þeim kleift að einbeita sér betur að því að stoppa leikstjórandann knáa hjá Grindavík og gestirnir gátu ekki stöðvað þriggja stiga regnið í lok þriðja leikhlutans.

Leiknum lauk fyrir fjórða leikhlutann með góðri skotnýtingu Stjörnunnar og þunnskipaðs liðs Grindavíkur.

Bestu leikmenn vallarins

Hlynur Elías Bæringsson virðist vera hættur að eldast og var enn og aftur framlagshæstur hjá sínu liði. Hann skoraði 15 stig, tók 11 fráköst, gaf fjórar stoðsendingar og varði eitt skot. Hann lauk leik með 25 framlagspunkta.

Mirza Sarajlija var magnaður fyrir utan þriggja stiga línuna og setti sjö þrista í ellefu tilraunum (63% þriggja stiga nýting). Eina aðra stigið hans kom úr vítaskoti og hann lauk leik með 22 stig.

Dagur Kár Jónsson varð að bera uppi sitt lið sóknarlega mest allan leikinn og var stigahæstur allra leikmanna á vellinum í kvöld með 30 stig.

Tölfræði sem vakti athygli

Stjarnan hafði yfirburði í nærri því öllum tölfræðiþáttum og tók t.a.m. 19 fleiri fráköst en Grindvíkingar í leiknum. Skotnýting þeirra var betri að öllu leyti [tveggja stiga, þriggja stiga og vítaskot] og þeir gáfu þ.a.l. 15 fleiri stoðsendingar.

Athyglisverðasta tölfræðin var líklega sú að bekkurinn hjá Stjörnunni skoraði 52 stig gegn aðeins 12 hjá Grindavík, sem voru með nokkuð þunnskipað lið í kvöld.

Hvað gekk illa?

Grindavík gekk illa að skora seinustu fimmtán mínútur leiktímans eftir að þeir misstu Óla Óla út af með fimm villur.

Gestirnir höfðu ekki nægilega mikið af sóknarvopnum til að skora með eftir brotthvarf Óla og Stjarnan lokaði vel á flesta möguleika þeirra. Því fór sem fór.

Hvað næst?

Stjarnan mætir næst Val í Origo-höllinni að Hlíðarenda föstudaginn 2. október kl.20:00 á Stöð 2 Sport. Þar verður aragrúi af landsliðsmönnum að spila í stórum leik milli tveggja stórra liða. Hlynur, Ægir Þór og Gunnar Ólafs mæta þar landliðsfélögum sínum í Pavel Ermolinskij og Kristófer Acox (að því gefnu að hann fái leikheimild tímanlega) ásamt Jóni Arnóri Stefánssyni, eins besta körfuknattleiksmann Íslands fyrr og síðar.

Grindavík verður fyrst liða til að heimsækja Hattarmenn á Egilsstöðum á þessu tímabili, en þeir eiga leik við þá 1. október í MVA-höllinni þar. Höttur er nýkomið upp úr 1. deild en hafa nokkra ágæta leikmenn innan sinna raða. Grindvíkingar vinna þann leik ekki með frammistöðu eins og þeir sýndu í kvöld í seinni hálfleik.

Hlynur Bærings: Bara „glorified“ æfingaleikur

Hlynur Bæringsson, landsliðsfyrirliði og fyrirliði Stjörnunnar, var sáttur með sigur í Meistarakeppni KKÍ í kvöld gegn Grindavík, 106-86. Leikurinn er yfirleitt kallaður Meistari meistaranna og þrátt fyrir góðan fyrri hálfleik var niðurstaðan ljós áður en lokafjórðungurinn var byrjaður.

“Það var á einhverjum tímapunkti í leiknum sem ég hugsaði ‘Þarna snerist þetta,’” sagði Hlynur þegar hann var spurður hvenær honum hefði fundist þetta vera komið. „Við mölluðum þetta aðeins yfir, allan leikinn. Hægt og rólega,“ sagði hann um hvernig honum hefði þótt liðið taka yfir í leiknum.

Þó að lokastaðan hafi verið 20 stiga munur á liðunum þá var staðan nokkuð jöfn í fyrri hálfleik, 56-50. Hlynur sagði að liðið hefði rætt saman í hálfleik hvað þyrfti að batna og farið eftir því. „Þeir tóku of mikið af sóknarfráköstum og við vorum að gefa helling af keyrslum inn í teig. Svo tókum við okkur bara saman í andlitinu,“ sagði hann um frammistöðu sinna manna í leiknum.

Í gegnum tíðina hafa menn rætt hvort að þessi leikur sé yfirleitt spennandi og hvort þessi titill, Meistari meistaranna, sé yfir höfuð einhvers virði. Skiptir þessi bikar Hlyn einhverju máli? „Nei, get ekki sagt það, eiginlega bara skemmtilegra að vinna,“ sagði Hlynur og bætti við: „Þetta er eiginlega bara vegsamaður æfingaleikur, ég myndi segja það. Ekki alveg æfingaleikur, en lítið skárri en það.“

Margir ungir leikmenn Stjörnunnar fengu nóg að gera í leiknum, fyrst að leikurinn var ekki spennandi í fjórða leikhluta. „Já, nokkrir sem komu vel inn hjá okkur,“ sagði Hlynur um næstu kynslóð leikmanna, sem sumir gætu verið synir hans.

Mirza Sarajlija, nýr erlendur leikmaður Stjörnunnar, er alls ekkert unglamb og sýndi reynsluna í kvöld með því að setja sjö þrista í ellefu tilraunum (63% þriggja stiga nýting).

Það getur varla verið leiðinlegt að deila vellinum með mönnum sem eru góðir að skjóta þristum. „Já, hann er mjög góður í því, menn eiga að nýta það sem þeir eru góðir í,“ sagði Hlynur og hafði engar áhyggjur af því að þurfa ekki að skjóta jafn marga þrista og áður. „Hann má skjóta eins mikið og hann vill. Ég þarf ekkert fleiri skot,“ sagði Hlynur léttur áður en hann hélt inn í klefa.

Daníel Guðni: Má ekki sýna minnstu viðbrögð.

Þjálfari Grindavíkur var ekki sáttur við að lúta í lægri haldi fyrir Stjörnumönnum í kvöld en var samt ánægður með að tímabilið væri að fara aftur af stað.

„Ljómandi gott, rosalega gott að fá að spila körfubolta aftur,“ sagði Daníel um tilfinninguna að vera kominn aftur á parketið.

Liðinu gekk ágætlega í fyrri hálfleik en misstu öll tök á leiknum þegar Óli Óla fór út af með fimm villur í miðjum þriðja leikhluta þegar hann fékk lokavilluna fyrir að mótmæla dómi. „Bara heimskulegt hjá honum að fá tæknivillu þarna,“ sagði Daníel Guðni um atvikið en var þó fljótur að bæta við: „Maður má varla lyfta höndum núna og þá fær maður tæknivillu. Má ekki sýna minnstu viðbrögð.“

Fyrir utan að missa besta framherjann sinn í miðjum leiknum voru Grindvíkingar án nokkurra stórra nafna í kvöld, sér í lagi þá Sigtrygg Arnar Björnsson (heilahristingur), Eric Wise (sóttkví) og Kristin Pálsson (veikindi). Daníel fannst samt ekki eins og niðurstaðan hafi verið ljós í upphafi leiks. „Það vantaði fullt í liðið en við spiluðum af hörku í fyrri hálfleik. Í seinni hálfleik datt botninn aðeins úr þessu hjá okkur, þeir ýttu okkur úr okkar aðgerðum og svo hittu þeir bara vel. Þeir eru með mjög gott körfuboltalið,“ sagði hann. Stjörnumenn eru nú einu sinni deildar- og bikarmeistarar seinasta tímabils.

En hvað þarf Grindavík að bæta fyrir næsta leik?

„Hávöxnu leikmenn mínir þurfa að taka fráköst. Þeir verða að frákasta,“ sagði Daníel og vísaði í afleitar frákastatölur í leiknum (56 fráköst gegn 37 hjá Grindavík). „Gengur lítið upp hjá okkur ef það verður svona. Verðum að gera betur. Stíga út,“ sagði hann og þakkaði fyrir sig eftir fyrsta leik tímabilsins.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira