Sport

Sara vitnaði í Kobe Bryant

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Sigmundsdóttir með Mola sínum en til hægri er Kobe Bryant.
Sara Sigmundsdóttir með Mola sínum en til hægri er Kobe Bryant. Samsett/Instagram/Getty

Þriðja árið í röð voru heimsleikarnir mikil vonbrigði fyrir íslensku CrossFit konuna Sara Sigmundsdóttir. Sara gerði upp helgina með því að vitna í Kobe heitinn Bryant.

Fyrir heimsleikana um helgina þá bjuggust flestir CrossFit sérfræðingar við því að sjá íslensku CrossFit konuna Söru Sigmundsdóttur ná einu af efstu fimm sætunum. Sara er búin að eiga frábært tímabil og var sú sem flestir töldu að ætti mestu möguleikana á að ógna Tiu-Clair Toomey á toppnum.

Niðurstaðan var hins vegar allt önnur. Sara Sigmundsdóttir endaði bara í 21. sæti á heimsleikunum og var sextán sætum og 170 stigum frá því að komast í fimm manna ofurúrslitin. Hún var í hópi neðstu keppenda frá fyrstu grein og það breyttist ekki eftir það.

Sara Sigmundsdóttir gerði upp helgina á Instagram síðu sinni með mynd af sér með Mola sínum og með því að vitna í bandaríska körfuboltagoðsögnina Kobe Bryant eins og sjá má hér fyrir neðan.

„Það mun alltaf vera mótbyr. Það verða alltaf áskoranir. Það gefur manni um leið tækifæri til að ná enn hærra,“ vitnaði Sara í Kobe Bryant.

„Þakkir til allra sem sáu til þess að þessi helgi gat farið fram. Þakkir líka fyrir alla ástina og allan stuðninginn,“ skrifaði Sara.

Sara Sigmundsdóttir mun vonandi halda áfram að vinna í sínum málum. Hún hefur átt hvert frábæra tímabilið á fætur öðru en heimsleikarnir ætla að reynast henni afar erfiðir.

Sara varð að hætta keppni á heimsleikunum 2019, náði ekki niðurskurðinum í fyrra og endar nú svona langt á eftir þeim bestu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×