Sport

Allt öðruvísi afmæli en vanalega hjá Söru

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Sigmundsdóttir með umboðsmanni sínum Snorra Barón Jónssyni sem átti einmitt afmæli degi áður en hún.
Sara Sigmundsdóttir með umboðsmanni sínum Snorra Barón Jónssyni sem átti einmitt afmæli degi áður en hún. Mynd/Instagram

Það eru bara nokkrir dagar í heimsleikana og ekki beint rétti tíminn fyrir afmælisveislu. Alla vega ekki fyrir íslensku CrossFit stjörnuna Söru Sigmundsdóttur sm ætlar sér stóra hluti á heimsleikunum í CrossFit í ár.

Sara Sigmundsdóttir hélt upp á 28 ára afmælið sitt á dögunum en hún er fædd 12. september 1992.

Sara fékk nóg af kveðjum á netinu og annars staðar en hún viðurkenndi að þetta hafi verið öðruvísi afmæli en vanalega enda bara sex dögum fyrir heimsleikana.

Það væri ekki slæmt fyrir okkar konu að fá sæti í ofurúrslitum heimsleikana í afmælisgjöf en fyrri hluti heimsleikanna fer fram í gegnum netið og þar keppa besta CrossFit fólk heims um sæti í fimm manna úrslitum.

Sara er búin að eiga gott tímabil og hefur verið að æfa mjög vel að undanförnu meðal annars með kollega sínum Björgvini Karli Guðmundssyni. Hún var því ekki að fara kúðra neinu þar með því að borða kræsingar eða halda veislu.

„Afmælið mitt var svolítið öðruvísi en vanalega af því að það var núna aðeins sex dögum fyrir heimsleikana í CrossFit. Ég fékk þó að njóta ljúffengrar vegan smáköku og fór síðan út að borða með vinum mínum. Takk fyrir allar vinalegu kveðjurnar,“ skrifaði Sara Sigmundsdóttir á Instagram síðu sína eins og sjá má hér fyrir ofan.

Heimsleikarnir í CrossFit eru vanalega haldnir í byrjun ágúst og keppnistímabilið er svo að byrja aftur í nóvember eða desember. Afmæli Söru hefur því oftast verið á góðum tíma fyrir CrossFit konu og verður það væntanlega aftur á næsta ári þegar hlutirnir verða vonandi komnir í eðlilegra horf.

Fyrri hluti heimsleikanna í ár hefst á föstudaginn og eftir keppni á laugardaginn verður ljóst hvaða keppendur enda í sætum 6 til 30 og hvaða fimm keppendur fá að keppa um heimsmeistaratitilinn í næsta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×