Fjölmargir íslenskir knattspyrnumenn voru í eldlínunni með sínum félögum víðvegar um Evrópu í dag.
Hörður Björgvin Magnússon kom CSKA Moskvu á bragðið í grannaslag gegn Spartak Moskvu en Spartak komst yfir snemma leiks og leiddi þar til Hörður jafnaði metin eftir hálftíma leik. Hörður lék allan leikinn sem lauk með 3-1 sigri CSKA en Arnór Sigurðsson sat allan tímann á varamannabekknum.
Í Svíþjóð var Arnór Ingvi Traustason í byrjunarliði Malmö þegar liðið fékk AIK í heimsókn en Kolbeinn Sigþórsson var ekki í leikmannahópi AIK. Leiknum lauk með markalausu jafntefli en Arnór Ingvi lék 69 mínútur í leiknum.
Aron Elís Þrándarsson lék síðasta hálftímann þegar OB vann 3-2 sigur á FCK í dönsku úrvalsdeildinni og Hjörtur Hermannsson stóð vaktina í 3-2 endurkomusigri Bröndby gegn Nordsjælland.
Í Noregi var Viðar Ari Jónsson á skotskónum í 0-2 sigri Sandefjord á Mjöndalen á meðan Alfons Sampsted lék allan leikinn í 6-1 sigri Bodö/Glimt á Odd.