Sport

Sara og Björgvin Karl þurfa að keppa eftir miðnætti á heimsleikunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Sigmundsdóttir og Björgvin Karl Guðmundsson þurfa ekki bara að vaka um miðja nótt heldur keppa á móti þeim bestu í heimi.
Sara Sigmundsdóttir og Björgvin Karl Guðmundsson þurfa ekki bara að vaka um miðja nótt heldur keppa á móti þeim bestu í heimi. Mynd/Samsett

Nú er aðeins ein vika í heimsleikana í CrossFit sem hefjast á föstudaginn í næstu viku, CrossFit samtökin hafa gefið út dagskrá fyrri hlutans sem fer fram í gegnum netið.

Þrjátíu bestu konurnar og þrjátíu bestu karlarnir keppa á heimsleikunum í ár og Ísland á þrjá af þessum sextíu keppendum. Fyrri hlutinn mun ráða um röð keppenda frá sæti sex til þrjátíu og um hvaða fimm karlar og fimm konur fá síðan að keppa um heimsmeistaratitilinn í október.

Vegna kórónuveirunnar þá munu keppendur skila æfingum sínum í gegnum netið í fyrri hlutanum og keppa því á heimsleikunum á sínum heimavelli. Keppendur koma frá fimmtán þjóðum víðs vegar um heiminn en tímadagskráin er löguð að höfuðstöðvum CrossFit í Kaliforníu.

Katín Tanja Davíðsdóttir keppir úti í Bandaríkjunum þar sem hún æfir en Sara Sigmundsdóttir og Björgvin Karl Guðmundsson keppa bæði á Íslandi. Það þýðir að þau Sara og Björgvin Karl eru sjö tímum á „undan“ áætlun.

CrossFit samtökin hafa gefið út dagskrána sem má sjá hér fyrir neðan.

Fyrri hluti úrslita heimsleikanna mun taka tvo daga en keppnin fer fram á föstudeginum 18. september og laugardeginum 19. september.

Báðum keppnisdögunum er skipt í tvo hluta og það er óhætt að segja að seinni hlutinn á föstudeginum sé á mjög óheppilegum tíma fyrir okkar fólk sem keppir heima á Íslandi.

Fyrri hlutinn á föstudeginum hefst klukkan tólf á hádegi á Kyrrahafstíma eða klukkan sjö um kvöld að íslenskum tíma. Seinni hluti föstudagsins hefst aftur á móti klukkan sex að staðartíma í Kaliforníu eða klukkan eitt eftir miðnætti á Íslandi.

Sara Sigmundsdóttir og Björgvin Karl Guðmundsson þurfa því að venja sig við að vaka lengur á næstu dögum til að geta verið í keppnisgírnum um miðja nótt aðfaranótt laugardagsins.

Fyrri hlutinn á laugardeginum hefst klukkan tólf á hádegi á Kyrrhafstíma eins og daginn áður en seinni hlutinn byrjar aftur á móti þremur klukkutímum fyrr eða klukkan tíu að íslenskum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×