Sport

Anníe Mist: Gerir mig að betri manneskju ef ég fæ „minn skammt“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anníe Mist Þórisdóttir er byrjuð að æfa aftur í CrossFit Reykjavík sem eru gleðifréttir. Hún tekur skynsamleg og skref í rétta átt á hverri æfingu og reynir ekki að gera of mikið strax. Hér sést hún geislandi glöð á þessari mynd á Instagram síðu sinni.
Anníe Mist Þórisdóttir er byrjuð að æfa aftur í CrossFit Reykjavík sem eru gleðifréttir. Hún tekur skynsamleg og skref í rétta átt á hverri æfingu og reynir ekki að gera of mikið strax. Hér sést hún geislandi glöð á þessari mynd á Instagram síðu sinni. Mynd/Instagram

Anníe Mist Þórisdóttir þarf sinn reglulega skammt af æfingum og segir að hennar allra nánustu viti það best allra.

Íslenska CrossFit goðsögnin Anníe Mist Þórisdóttir segir því fylgja töfrandi tilfinning að vera komin aftur af stað í lyftingasalnum sínum eftir barnsburðinn.

Anníe Mist gaf það út í vikunni að hún ætlaði sér að keppa aftur í CrossFit á nýju ári og þar sem The Open hefst strax í febrúar fær hún aðeins fimm mánuði til að koma sér aftur í keppnisform.

Anníe Mist fagnar því að vera farin að æfa aftur en lofar aðdáendum sínum að fara varlega af stað.

„Það fylgja því töfrar að vera komin aftur af stað í salnum,“ skrifaði Anníe Mist Þórisdóttir á Instagram síðu sína og notaði orðið „MAGICAL“ í hástöfum.

Anníe Mist birti líka myndir af sér af æfingunni. Það fer ekkert á milli mála hversu sátt hún er enda geislandi glöð á þessum myndum eins og sjá má hér fyrir neðan.

„Ég þarf enn að passa mig á því að fara varlega því líkaminn minn er enn að koma til baka,“ skrifaði Anníe Mist en hún eignaðist dóttur fyrir mánuði síðan eftir mjög erfiða fæðingu þar sem hún tapaði meðal annars miklu blóði.

Anníe Mist hafði æft alla æfinguna en það breytti því ekki að hún átti erfitt með að gera einföldustu hluti eftir þessa miklu áreynslu. Anníe hefur síðan leyft fylgjendum sínum að fylgjast með öllum skrefum endurkomunnar þó að mörg þeirra hafi verið lítil.

„Þyngdirnar eru litlar hjá mér en með mikið af endurtekningum. Áhrifin eru líka mikil. Að fá minn skammt af hreyfingu gerir mig að betri móður, betri dóttur, betri maka og betri persónu. Fólkið næst mér getur staðfest það,“ skrifaði Anníe Mist.

„Setur þú sjálfan þig í forgang að minnsta kosti í smá tíma á hverjum degi? Hvað gerir þú þá? Láttu mig vita því ég þarf hugmyndir að einhverju sem snýst ekki um að æfa,“ biðlaði Anníe Mist síðan til fylgjenda sinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×