Erlent

Óttast að Bretar séu búnir að missa tökin á faraldrinum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Nýju tilfelli veirunnar í Bretlandi hafa, líkt og í öðrum löndum í þessari síðari bylgju faraldursins, aðallega greinst meðal yngra fólks.
Nýju tilfelli veirunnar í Bretlandi hafa, líkt og í öðrum löndum í þessari síðari bylgju faraldursins, aðallega greinst meðal yngra fólks. Vísir/getty

Nýsmituðum af kórónuveirunni hefur fjölgað mjög í Bretlandi síðustu daga. Óttast er að bresk yfirvöld hafi misst tökin á faraldrinum.

Nær þrjú þúsund manns greindust með veiruna í dag, sunnudag. Um er að ræða 50 prósent aukningu milli daga og þá hafa ekki fleiri greinst með veiruna á einum degi síðan í maí.

Gabriel Scally, prófessor og fyrrverandi framkvæmdastjóri í lýðheilsumálum hjá breska heilbrigðiskerfinu (NHS), er einn þeirra sem hafa þungar áhyggjur af fjölgun smita.

„Þau eru búin að missa tökin á veirunni,“ segir Scally í samtali við Guardian.

„Þetta eru ekki lengur litlar hópsýkingar sem þau geta kveðið niður. Þetta er orðið landlægt í fátækustu samfélögunum og þetta er afleiðingin. Það er gríðarlegt áhyggjuefni þegar skólar og háskólar eru byrjaðir að opna á ný.“

Nýju tilfelli veirunnar í Bretlandi hafa, líkt og í öðrum löndum í þessari síðari bylgju faraldursins, aðallega greinst meðal yngra fólks. Matt Hancock heilbrigðisráðherra Bretlands segir fjölgun nýsmita „áhyggjuefni“ og beinir því til ungs fólks að gæta vel að sóttvörnum til að hlífa þeim sem eldri eru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×