Innlent

Botnlanginn fjarlægður úr Víði

Kjartan Kjartansson skrifar
Víðir lét ekki verki sem hann byrjaði að finna fyrir stöðva sig í að njóta þess að vera í fríi í síðustu viku. Einkennin fóru hins vegar versnandi og endaði hann á að gangast undir uppskurð á mánudag.
Víðir lét ekki verki sem hann byrjaði að finna fyrir stöðva sig í að njóta þess að vera í fríi í síðustu viku. Einkennin fóru hins vegar versnandi og endaði hann á að gangast undir uppskurð á mánudag. Vísir/Vilhelm

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, gekkst undir botnlangauppskurð á mánudag eftir að einkenni í kviðarholi sem hann byrjaði að finna fyrir í hálendisferð í síðustu viku fóru versnandi. Líðan hans er góð og býst hann við að koma aftur til starfa í næstu eða þarnæstu viku.

Fyrstu einkennin gerðu vart við sig þegar Víðir var staddur upp á hálendi í fríi í síðustu viku. Hann var grunlaus um að verkurinn í kviðarholinu væri botnlangabólga og kláraði ferðina.

„Svo fór ég til læknis um helgina og þetta ágerðist. Það endaði með að ég var skorinn núna á mánudaginn og tekinn úr mér botnlanginn, stokkbólginn,“ segir Víðir í samtali við Vísi.

Hann er nú heima að jafna sig eftir aðgerðina en segist hafa það gott. Honum hafi verið ráðlagt að hvíla sig í sjö til fjórtán daga og býst við að koma aftur til starfa í lok næstu viku eða byrjun þarnæstu.

Mikið hefur mætt á Víði í kórónuveirufaraldrinum þar sem hann hefur að miklu leyti verið andlit aðgerða stjórnvalda ásamt sóttvarna- og landlækni. Hann tengir botnlangakastið nú ekki við álag síðustu mánaða.

„Ég held að þetta sé nú bara tilviljun. Ég veit ekki til þess að þetta tengist neinu álagi svona botnlangabólga. Ég held að þetta sé eitthvað annað,“ segir Víðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×